Færsluflokkur: Ferðalög

Ókeypis náttúruparadís liggur undir skemmdum

Þessu verður að breyta þar sem svona háttar til, eins og lýst er í meðfylgjandi frétt um slæma umgengni og sóðaskap í einni af náttúruparadísum Íslands.
Tekjur verða að fylgja tilkostnaði. Sá sem ber kostnað af ferðamannastraumi ætti að njóta tilhlýðilegra tekna fyrir.

Ég spyr ágæta og greiðuga landeigendur Hreðavatnslands hvort þeir hafi íhugað að stofna t.d. "Sveitagarð" með einhverri ferðavænni aðstöðu sem þeir síðan gætu haft einhverjar tekjur af til að fjármagna aðstöðu og eftirlit, hliðstætt og eigendur Bláa lónsins hafa gert þar. Þar kemst enginn inn nema þeir sem kaupa sér aðgang að því sem þar er í boði - og fuglinn fljúgandi.

Það er t.d. skömm hópferðafyrirtækja að hagnýta sér þessa aðstöðu án þess að greiða fyrir.
Fyrir utan frábært og fallegt landslag og gróðursælt unaðslegt umhverfi þarna, sem indælt er að ganga um niður að fossinum Glanna og lautarferðastaðnum Paradísarlaut, þá hafa landeigendur látið reisa flottan útsýnispall ofan við fossinn Glanna á sinn kostnað. Fyrir utan annað er hægt að fylgjast þar með löxunum undir fossinum og stórlöxunum á árbakkanum neðar. Mér skilst að landeigendurnir hafi fengið einhverja hungurlús í styrk frá hinu opinbera upp í framkvæmdina á sínum tíma og er það allt og sumt.
Þarna kemur sægur hópferðabíla og ferðafólks á einkabílum daglega yfir allt sumarið og meira en það þannig að oft myndast örtröð á bílastæðinu sem er við golfskála Golfklúbbsins Glanna (GGB). Golfskálinn býður einnig upp á þrifalega salernisaðstöðu sem opin er allan sólarhringinn. Þar er notendum þó í sjálfs vald sett hvort þeir leggi fram einhverja aura fyrir aðstöðuna og fá skálaeigendur þannig lítið fyrir sinn snúð. 

Langlundargeð forráðamanna svæðisins við Glanna í Hreðavatnslandi er aðdáunarvert. Vonandi verður dásamlegt umhverfið þarna ekki skemmt með óhóflegum átroðningi vegna hinna frjálsu ókeypis afnota og eftirlitsleysis.
Þetta á náttúrulega við um aðrar náttúruparadísir þar sem svona háttar til.


mbl.is Slæm umgengni og sóðaskapur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir borgi sem njóta

Ég hef áður ritað pistil um gjaldtöku á (vinsælum) ferðamannastöðum á Íslandi þannig að aðgangseyrir þar af renni til uppbyggingar og viðhalds á viðkomandi stöðum. Þetta verði framkvæmt samkvæmt reglum sem settar verði af hinu opinbera þar um og háð eftirliti. Þannig er þetta víða erlendis.

Það er glórulaust að fyrirtæki í ferðamannabransanum geti gert út á þessa staði án þess þeir eða viðskiptavinir þeirra kosti nokkru til sjálfir. Hingað til og enn þá eru þeir að gera út á náttúru Íslans og opinber framlög skattgreiðenda hérlendis.
Það er ennfremur í anda óhefts og stjórnlauss aðgangs allra að sömu auðlindinni sem leiðir að lokum til mettunar á vinsælum stöðum og óhagræðis fyrir alla þegar staðirnir missa aðdráttarafl sitt vegna ásóknar, átroðnings, mannmergðar og niðurníðslu.


mbl.is Milljónirnar 50 ekki nóg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúrupassinn fær reisupassann

Það er ekki nema von að iðnaðarráðherrann skuli gefa náttúrupassa ómöguleikans reisupassann; og er það vonum seinna.

Hvað er þá til ráða? Jú, hin eðlilega lausn: Þeir borgi sem njóta, þ.e. seljendur og/eða kaupendur þjónustu við náttúruskoðun.

Hverjir eru seljendur? Eigendur og/eða handhafar landgæðaréttinda. Þeir ættu að kosta sómasamlega þjónustuaðstöðu og viðhald hver á sínum stað, sem háð yrði opinberu eftirliti og leyfisveitingum, og hafa leyfi til að taka "hæfilegt" og "hóflegt" gjald fyrir.

Að öðrum kosti, eins og verið hefur hingað til og enn stefnir í, eru skattgreiðendur á Íslandi að niðurgreiða og/eða styrkja með óbeinum hætti starfsemi hópferðafyrirtækja og bílaleigufyrirtækja sem gera út á þessa auðlind sem íslensk náttúra er.

Hópferðafyrirtæki og aðilar sem selja (ekki síst erlendum) ferðamönnum útsýnisferðir á tiltekna staði gætu að sjálfsögðu selt kúnnum sínum aðgöngumiða á viðkomandi staði samkvæmt samkomulagi við hvern aðila eins og verkast vill.

Nú, sem áður, er bara hægt að harma að stjórnmálamenn og embættismenn skuli hafa eytt dýrmætum tíma í athafnaleysi í skipulags- og gjaldtökumálum út af vangaveltum og hugmyndum um náttúrupassa sem ekki getur virkað sem skyldi, í stað þess að drífa í að koma á nothæfu og eðlilegu fyrirkomulagi t.d. á ofangreindum nótum eins og tíðkast víða erlendis og þykir eðlilegt.

Þetta fyrirkomulag leysir þó ekki allan vandann tengt kostnaði við vinsæla og verðandi ferðamannastaði til náttúruskoðunar. Þar verður hið opinbera að kosta til og styrkja lágmarksframkvæmdir til að byrja með á hverjum stað. Það má fjármagna með gistináttagjaldi og öðru því um líku sem til þess er ætlað.


mbl.is Gefur náttúrupassa upp á bátinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðteygni og virðisaukaskattur í ferðaþjónustunni

Það mætti halda að fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sé ekki meðvitaður um það hagfræðilega fyrirbæri sem kallast teygni eftirspurnar og verðteygni ef dæma má af ummælum hans í viðhangandi fréttaviðtali um áhrifin af lækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónusu á Íslandi; Enda er það e.t.v. ekki til umfjöllunar í námi jarðfræðinga. - Eða þá að hann og þeir sem eru sama sinnis telji að eftirspurnin eftir ferðaþjónustu á Íslandi sé almennt "óteygin" (lægri en 1, sbr. neðar).

Varðandi umræðu um áform um lækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu á Íslandi er vert að benda stuttlega á eftirfarandi almennu atriði um teygni eftirspurnar:

Hugmyndin að baki verðlækkunar snýst um það að með því náist hærri velta vegna meiri magnsölu en ella.
Sé verðteygni vöru meiri en 1 myndi sölumagn vöru aukast hlutfallslega meira en sem nemur tiltekinni verðlækkun og veltan myndi þá aukast. Það á t.d. við um samkeppnisvörur og þar sem ríkir "fullkomin samkeppni".
Sé verðteygni vöru minni en 1 myndi sölumagn aukast hlutfallslega minna en tiltekin verðlækkun á vörunni og veltan því minnka, en aftur á móti myndi sölumagn þá ekki minnka hlutfallslega jafn mikið og tiltekin verðhækkun. Þetta á t.d. við um vörur sem fólk vill ógjarnan vera án á tilteknu verðbili og tímabili, svo sem tóbak og áfengi. Verðhækkun ríkisins á tóbaki og áfengi byggir m.a. á þeirri forsendu að velta muni þrátt fyrir það aukast, þ.e. að magnsalan minnki hlutfallslega minna en verðhækkuninni nemur (eftirspurnin óteygin).

Ferðaþjónustan á Íslandi býður almennt séð upp á þjónustu sem er í harðri alþjóðlegri samkeppni við hliðstæða þjónustu í öðrum löndum sem bjóða upp á valkosti fyrir ferðafólk.
Skynsemin í og rök að baki almennrar verðlækkunar á ferðaþjónustu, eins og tilfellið er með lækkun virðisaukaskatts innan þeirrar greinar, byggir því á þeirri forsendu að eftirspurnin eftir henni sé teygin, þ.e. verðteygnin hærri en 1, og að veltan og afraksturinn innan hennar (þar með talið tekjur hins opinbera í formi vsk) muni því ekki minnka við vsk-lækkunina heldur þvert á móti aukast.

PS. Formúlan fyrir útreikning á teygni eftirspurnar (e) er:

     e = Hlutfallsleg breyting í magni eftirspurnar
           Hlutfallsleg breyting á verði

 


mbl.is Skuldarar fá leiðréttingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrúðgarðurinn við Dýrafjörð

Til hamingju með þessi virtu verðlaun, Carlo Scarpa verðlaunin. Þetta er þeim sem þarna starfa til sóma og vegsauka, bæði á sviði menningarlandslags, garðlistar og landslagsarkitektúrs.

Árið 2009 ritaði ég stuttan pistil um stemninguna þarna í sveitasælunni þar sem garðurinn Skrúður er stutt frá Núpi við Dýrafjörð og bendi á hann hér með til yndisauka í amstri dagsins.


mbl.is Skrúður hlýtur Carlo Scarpa verðlaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju spáði George Orwell?

Hvað kallaði George Orwell nú þetta fyrirkomulag í skáldsögu sinni 1984?

Í hvaða tilgangi taldi hann að því yrði komið á?

En, hvað um það. Myndu flutningsmenn þessarar tillögu vilja sýna sig í beinni á þessum stöðum? Ja, þeir eru ef til vill orðnir ónæmir fyrir slíku eftir að vera búnir að bera sig í beinni útsendingu á Alþingi lon og don, þar sem allt þeirra athæfi og hljóð hefur verið opið öllum þó það hafi nú ekki allt verið til að hafa eftir.


mbl.is Vilja vefmyndavélar á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stemning í Skrúði og Dýrafirði

Skrúður er dásamlegur garður í mögnuðu umhverfi. Ég mæli eindregið með að ferðafólk geri lykkju á leið sína um Dýrafjörð og keyri út að Núpi, þar sem garðurinn er. Þarna eru ótrúlega margar plöntur, tré, runnar og blóm í öllum regnbogans litum. Þarna hefur verið vel hirt og nostrað við hlutina. Ekkert er sambærilegt við það að setjast niður í svona umhverfi og láta hugann reika á glöðum sumardegi innan um gróðurinn og ilminn. Þarna öðlast maður kærkomna hvíld frá glímunni við þjóðveginn, þótt ekki sé dokað lengi við.

Þá er stutt í yndislega mýrina neðan við gamla skólastjórabústaðinn að Núpi. Þar er hægt að ganga um vegarslóða, talsverðan spotta, niður í fjöru og inn að ós litlu árinnar sem þar rennur í sjóinn. (Umferð er að vísu takmörkuð yfir varptímann). Á þeirri gönguferð skiptir litlu máli hvernig veðrið er ef maður er viðeigandi klæddur. Gróðurilmurinn allsstaðar, villt blómin bærast fyrir golunni innan um puntstráin og hápunkturinn er þegar spói vellir sjóðbullandi í fjarska úti í mýrinni.

Ef farið er enn utar með ströndinni, og ekki skeytt um slæma færð, er komið í Arnarnes. Þar er nánast dulmagnað svæði, skáhallt á móti Haukadal sem er hinum megin við fjörðinn, þar sem meginvettvangur Gísla sögu Súrssonar er. Fjaran við Arnarnes er fjölskrúðug og römm. Þögult umhverfið og fallin mannvirki vitna um fyrri tíma. Ofan við rísa ógnvekjandi, þverhníptir hamrarnir.

Ef komið er við á Þingeyri er upplagt að skreppa út með ströndinni í Haukadal og ganga þar um og dálítið upp í dalinn um kindatroðninga. Það er einkar áhrifaríkt að virða fyrir sér staðháttu, hafa bókina um Gísla sögu Súrssonar meðferðis og lesa yfir kafla þar sem staðháttum er lýst og þannig nánast upplifa söguna með sögusviðið ljóslifandi fyrir augum sér. Mannlýsingar sögunnar eru krydd á dvölina þarna og fá dalinn til að lifna við. Þarna sést hóllinn þar sem bærinn stóð forðum, samkvæmt sögunni, hlíðarnar sem kotin stóðu á og seftjörnin ofan við fjöruna sem einnig er minnst á. Magnað! Þótt deila megi um sannleiksgildi sögunnar eru staðháttalýsingarnar í henni í samræmi við raunveruleikann. - Þarna er líka stutt í skemmtilegan golfvöll! Góða ferð!


mbl.is Garðurinn Skrúður í Dýrafirði 100 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband