Færsluflokkur: Dægurmál
Til hamingju með þessa hressilegu hækkun, Íslensk erfðagreining (ÍE). Þetta er skemmtileg upplyfting. Það eru góðar fréttir að einhverjir þarna úti skuli vera nógu framsýnir og hyggnir til að eygja þann mikla ávinning sem óhjákvæmilega hlýtur að koma í ljós í fyllingu tímans á sviði brautryðjendastarfsins á sviði erfðarannsókna sem ÍE stundar. Þar þarf líka að koma til þolinmæði af hálfu fjárfesta til að festa fé í þessu tímafreka þróunarstarfi.
Þessu máli svipar til þrotlausra tilrauna Thomas A. Edison er hann var að þróa ljósaperuna við nokkuð erfiðar aðstæður. Ef ég man rétt var hann hann búinn að gera um 3000 tilraunir áður en honum tókst að láta lifa á rafperu í nokkurn tíma. Það sem knúði Edison áfram var óbilandi fullvissan um að þetta væri hægt og að þetta væri framtíðin hvað lýsingu snerti, þ.e. að nýta rafmagn. Eins er með erfðarannsóknirnar og þá sem þær stunda og stjórna og leiða.
Hugsa sér það að hægt verði að "lagfæra" gölluð gen í frumum, sem valdið hafa t.d. krabbameinsmyndun í líkamsvefjum og líffærum, þannig að þau framleiði á ný heilbrigðar og eðlilegar frumur, eða með öðrum orðum að hægt verði að setja inn "rétt forrit" fyrir frumuframleiðslu líkamans á viðkomandi stað.
En, fyrst þarf óhemjumiklar rannsóknir og greiningar, bæði á lífsýnunum sjálfum og á sviði ótrúlega flókinna útreikninga við svokallaðar raðgreiningar á sýnunum og tölfræði þar að lútandi (sbr. kynningarbók um efnið: Introduction to bioinformatics, e. Attwood og Parry-Smith, Prentice Hall, 1999). Til þess þarf m.a. öflugan tækjabúnað og hugbúnaðarþróun. Þetta er heillandi starf sem snýst um lífið sjálft. Hvað er mikilvægara?
Hér er um að ræða verðmæta auðlind sem Íslendingar eiga í fórum sínum og sem hægt er að nýta þeim og öðrum til góðs, þ.e. lífsýnasafnið sem ÍE kom sér upp fyrir nokkrum árum í kjölfar sviptinga og venjulegra úrtöluradda í þjóðfélaginu sem ekki skildu eða vildu ekki skilja um hvað málið snýst hvað nýtingu gagnanna varðar. Þessi gögn verða samt bara gögn og ekkert meir og engum til gagns ef þau eru ekki rannsökuð og leitast við að greina þær undursamlegu upplýsingar sem í þeim felast. Til þess þarf tíma, þekkingu, þrotlausa þekkingarleit og ályktunarhæfni (og auga fyrir mynstri!) og margt fleira sem hæft starfsfólk býr yfir, auk hins afar kostnaðarsama tækjabúnaðar og aðstöðu og góðs skipulags. Ekki síst þarf úthald og þrek og þol allra hlutaðeigandi aðila, bæði hjá starfsfólki og fjárfestum. Þessu hafa skammsýnir fjárfestar og fjármálaráðgjafar ekki gert sér grein fyrir í upphafi ef þeir hafa haldið að þeir gætu innbyrt skjótfenginn hagnað á fyrsta ári. Þeir hafa ekki leitt hugann nægilega vel að eðli þessarar starfsemi og gert sér óraunhæfar væntingar um tímasetningu uppskerunnar.
Það er þrekvirki að hafa komið þessu stóra fyrirtæki á laggirnar á Íslandi á sínum tíma og draga að allan þann fjölda hæfs starfsfólks, svo sem sæg vísndamanna á heimsmælikvarða, eins og raunin varð á þegar í upphafi, enda var sárt að horfa upp á er fyrirtækið neyddist til að sjá á eftir mörgum starfsmönnum sínum sökum niðurskurðar í starfseminni í miðjum klíðum fyrir nokkrum árum. Enn meira þrekvirki er að viðhalda þeirri þrautseigju sem þarf til að halda starfinu áfram og leiða fyrirtækið á þróunarbraut sinni þótt á móti blási, köldu á tíðum.
ÍE er dæmi um verðmætan og nýstárlegan fyrirtækjarekstur í landinu sem dregið hefur að erlent fjármagn fjárfesta til að vinna verðmæti úr innlendri auðlind, sem lá dulin og ónýtt fyrir, án þess að henni yrði fargað í leiðinni né umhverfisspjöll unnin eða umhverfið mengað. Þetta er uppskrift að góðum "kokteil" fyrir fjárfreka starfsemi á Íslandi. Við þurfum fleiri svona kokteila hér á landi núna. Þá geta Íslendingar fyrr en seinna haldið veislu á ný með góðri samvisku og jafnvel farið á konsert í nýja tónlistarhúsinu ásamt útlenda ferðafólkinu. Vonandi verða einhverjir nýútskrifaðir kandidatar úr íslenskum háskólum þar á meðal.
Bréf deCODE hækkuðu um 14% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.6.2009 | 02:03
Heima er von, ef ...
Undursamleg mynd um heimkynni mannkyns, Home, var sýnd hnípnum landsmönnum í kvöld, sem varla hafa verið búnir að jafna sig eftir fréttir dagsins og var það þó ærið álag.
Þar er dregin upp mynd af örlagaríkum inngripum manna í lífkeðju jarðar, sérstaklega undanfarinn mannsaldur. Eftir þá dökku sýn sem vakin er athygli á um miðbik myndarinnar er í síðasta hluta hennar blessunarlega bent á jákvæða hluti sem eru þó að gerast í sumum löndum víða um heim þrátt fyrir allt og þeir gefa vissulega VON. Á henni þarf fólk á þessari jörð að halda nú sem aldrei fyrr. En vissulega þarf að bregðast hraðar við aðsteðjandi vanda en hingað til, áður en náttúran hreinlega neyðir menn til breytinga; til að lifa næsta dag!
Einn vandinn í þessu sambandi er þó sá, að baráttan um breytingar fyrir lífvænlegri umgengni um viðkvæma náttúru og auðlindir hennar á sér stað á vettvangi stjórnmálamanna þróuðu ríkjanna og skoðanamyndun og siðferðisstyrk í heilabúi þeirra manna. Spurningin er hverju þeir greiði atkvæði með: þröngum hagsmunum, eða víðsýni sem tekur tillit til samverkandi lífkerfis náttúrunnar í hnattrænu samhengi í ljósi þess að áframhaldandi siðmenntað líf er háð sjálfbærum lifnaðarháttum.
Hér og nú er þörf á endurnýjun hugarfarsins að þessu leyti og að hugað verði að gjörbreyttum lifnaðarháttum í þessum anda. Annars eiga afkomendur okkar ekki von um lífvænlega framtíð.
Það gleðilega fyrir Íslendinga er að það er býsna margt sem hér er hægt að gera til að sporna við þessari ógnvænlegu þróun samhliða því að ráðin væri bót á öðrum aðkallandi vandamálum, svo sem að stemma stigu við atvinnuleysinu, auka framleiðslu innan lands sem kæmi í vaxandi mæli í stað innflutnings og yki útflutningstekjur, yki eftirspurn eftir húsnæði (fyllti jafnvel allt það tóma og ókláraða húsnæði sem er fyrirliggjandi núna) og væri fyrirmynd fyrir það hvernig takast má á við aðsteðjandi erfiðleika og tekjurýrnun í þjóðarbúskapnum.
Málið snýst um að beina vinnufúsum höndum og hugum í uppbyggilega farvegi, sem vissulega eru fyrir hendi ef vel er að gáð.
Þessi atriði er auðvelt að útfæra, sérstaklega ef hugsað er örlítið, jafnvel talsvert, út fyrir þröngsýnan "kassann" (og væri hægt að halda því áfram hér). En, hvar eru allir ráðgjafarnir og ráðþegarnir á vegum hins opinbera? Stjórnarandstaðan kvartar undan því undanfarna daga að lítið bitastætt heyrist úr þeim ranni til úrlausnar á bráðavanda þjóðarinnar!
Hið hryggilega er að lítið fer fyrir umræðu í slíka veru á opinberum vettvangi og virðast menn og aðilar félagssamtaka stjarfir við að horfa á hraðminnkandi atvinnuleysistryggingasjóði og sóa þar með dýrmætum tíma í vonlitla bið og aðgerðaleysi og karp í stað þess að nýta m.a. það fé og verkefnalausan mannafla til uppbyggilegri hluta.
Sem sagt: Við þurfum að bregðast viturlega við sem fyrst, bæði heima fyrir og hnattrænt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2009 | 02:44
Erlenda séreignarsparnaðar-gjaldeyrinn heim!
Ég legg til að það þak sem sett var á innlausn á séreignarsparnaði verði fjarlægt varðandi þann sparnað sem fólk á erlendis, svo að þeir sem hann eiga geti flutt sparnað sinn hingað heim.
Ég hygg að sé miklu meiri þörf fyrir hann hér en þar, ágæta ríkisstjórn, bæði fyrir fólk og ríki!
Ég segi: Séreignarsparnaðar-gjaldeyrinn heim!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2009 | 17:44
Eiga (háir) stýrivextir við á Íslandi í dag?
Pistill þessi er tilkominn sem viðbrögð við góðu uppleggi um vaxtamál sem Már Wolfgang Mixa ritar á bloggi sínu 25.5.2009. Már spyr þar hvort stýrivextir séu úrelt fyrirbæri sem standi í vegi fyrir vaxtalækkunum.
Í stuttu máli gæti svarið falist í eftirfarandi einfaldaða dæmi: EF framboð af sparnaði og eftirspurn eftir lánsfé væru látin ráða vaxtastigi, innlendur lánsfjármarkaður væri lokaður (eins og nú er með gjaldeyrishöftum) og gengisáhætta vegna erlendra lána þar með ekki með í dæminu, þá reynir ekki mikið á stýrivexti Seðlabankans. Málið snýst um hvort opið sé fyrir lánsfé inn í hagkerfið til banka og almennings, eða ekki. Ef hagkerfið (og lánsfjármarkaðurinn) er lokað og magn útlána banka þá alfarið háð innlánum eða sparnaði sparifjáreigenda og fyrirtækja, og vaxtastig látið ráðast af framboði sparifjár og eftirspurn eftir lánsfé þá spila stýrivextir Seðlabankans ekki stórt hlutverk. Í eðlilegum rekstri undir þeim forsendum myndu bankarnir þá ekki þurfa að notfæra sér lán í Seðlabankanum nema til að hlaupa undir bagga tímabundið hverju sinni með lausafé. Vaxtakostnaður banka vegna slíkra skyndilána í Seðlabankanum myndu þá ekki vega þungt í kostnaði þeirra. Þar liggur hundurinn (lánabólu)grafinn.
Dæmi um svona aðstæður að nokkru leyti er sparisjóður úti á landi sem var í sjónvarpsfréttum rúv s.l. vetur, sem ekki varð fyrir barðinu á bankahruninu vegna þess að hann hagaði sér eins og ábyrgur og varfærinn sparisjóður á sínu svæði: tók á móti sparnaði viðskiptavina og ávaxtaði hann með varfærinni útlánastefnu á starfssvæði sínu sem tók mið af arðsemi fjárfestingarvalkosta og greiðsluhæfi lántakenda.
Í stuttu máli vil ég benda á að við "eðlilegar" aðstæður ættu framboð og eftirspurn að ráða vaxtastigi á innlendum markaði, eins og hér hefur komið fram. Annað eru í reynd falskir vextir, m.ö.o. rangt kaupverð á afnotarétti lánsfjár séð frá sjónarhorni lántakenda og rangt söluverð á afnotum á sparnaði séð frá sjónarhorni lánveitenda/sparenda. Þetta verð, vextirnir, ættu ennfremur, ef eðlilegt er, að fara eftir endurgreiðsluhæfni lántakandans og/eða því hvernig lánsfénu er varið. Er því t.d. varið í fjárfestingar á eignum eða atvinnutækifærum sem væntanlega hækka að verðgildi eða bera góðan arð og stendur því væntanlega undir sér sjálft? Eða er lánsfénu varið í neyslu sem skapar lántakandanum ekki beint eignir né verðmæti sem gefa af sér beinan arð? Þá reynir á greiðsluhæfi lántakandans, s.s. núverandi og væntar tekjur og fyrirliggjandi eignir, þ.e. lánshæfi lántakandans.
Við þessar aðstæður, og ef í bili er ekki með í dæminu að bankakerfi og lánastofnanir landsins hafi aðgang að erlendu lánsfé, þá gæti vaxtastigið í reynd verið hvað sem er, háð eftirspurn og framboði, en myndi þó í reynd ráðast af viðhorfum aðila á þessum markaði til annarra hagrænna valkosta. Maður myndi ekki taka lán fyrir "óendanlega" háa vexti og fjármagnseigandi myndi varla lána fé sitt fyrir ekki neitt. Fyrr er hugað að öðrum leiðum í lífinu og fólk endurmetur t.d. óþolinmæði gagnvart eignamyndun.
Bankar og aðrir lánveitendur gætu ekki lánað út nema það sem nemur sparnaði almennings og fyrirtækja á hverjum tíma í hagkerfinu. Þeir yrðu eðli málsins samkvæmt að hafa útlánavexti sína einhverjum prósentustigum hærri en á innlánsvöxtum til að geta staðið undir rekstri sínum. (Sá vaxtamunur er hins vegar umdeildur og af mörgum talinn óþarflega hár hérlendis). Ef útlánahegðun banka og lánastofnana tæki alfarið mið af sparnaðinum með þessum hætti myndi ekki skipta máli þótt seðlabanki landsins (hér Seðlabanki Íslands) ákveði svokallaða stýrivexti sína með öðrum hætti og í ósamræmi við gildandi jafnvægisvexti samkvæmt ofangreindum aðstæðum á markaði í því augnamiði að hafa áhrif á vaxtastigið í umræddu hagkerfi. Þannig setur seðlabankinn ýmist háa stýrivexti (þ.e. hærri en ríkjandi jafnvægisvexti á markaðnum) í þeirri viðleitni að draga úr útlánum innan hagkerfisins eða lága stýrivexti til að örva atvinnulíf og fjárfestingar (og neyslu).
Slík inngrip myndu ekki hafa nein áhrif á lánsfjármarkaðinn í ofangreindu dæmi um lokað hagkerfi þar sem stýrivextirnir hafa ekki áhrif á magn lánsfjárins sem er í umferð. Að vísu þurfa bankar að geta aukið tímabundið lausafé sitt, svo sem í þeim tilvikum er sparifjáreigendur taka út fé sitt sem þá hefur verið bundið í útlánum á vegum bankans til ávöxtunar. Í þeim tilvikum þarf bankinn e.t.v. að leita til seðlabankans um tímabundið lán og það þarf hann að greiða fyrir með stýrivöxtum seðlabankans. Ef þeir eru hærri en ríkjandi útlánssvextir bankans til sinna viðskiptavina myndi bankinn tapa á því láni, en ekki ef stýrivextirnir eru lægri en útlánavextir bankans, til skamms tíma litið. Þetta er í lagi fyrir bankann ef ekki er mikið um að hann þurfi að grípa til þessa úrræðis og að meðaltali myndi vaxamunur bankans, munurinn á innlánsvöxtum og útlánsvöxtum hans, væntanlega vera sniðinn að teknu tilliti til þessa.
Hins vegar skapast vandamál ef bankinn í dæminu hagar útlánum sínum þannig að ekki verður eðlilegt jafnvægi á milli innlána og útlána hjá honum, þ.e. ef hann lánar út of mikið eða bindur of mikið fé þannig að hann þurfi viðvarandi að taka lán hjá seðlabankanum til að verða ekki uppiskroppa með lausafé (gjaldþrota). Þá væri bankinn orðinn háður seðlabankanum og þeim vöxtum sem þar bjóðast, þ.e. ef stýrivextirnir væru hærri en útlánavextir bankans (tekjur hans). Við þær aðstæður þarf bankinn að fara að taka tillit til stýrivaxtanna og hækka útlánsvexti sína með hliðsjón af þeim.
Þetta á vel að merkja við um lokaðan lánsfjármarkað þar sem ekki er um annað viðvarandi utanaðkomandi lánsfé að ræða fyrir innlenda bankakerfið, fyrir utan hinn innlenda sparnað. Þegar möguleikar opnast fyrir að erlent lánsfé flæði inn í hið fyrrum lokaða hagkerfi, þannig að magn lánsfjár eykst (mikið) og með lægri vöxtum en fyrir voru, þá skipta stýrivextir seðlabankans litlu máli. Þegar lokast skyndilega fyrir flæði erlends lánsfjár inn í hagkerfið þá verða innlendu bankarnir jafn skyndilega algjörlega háðir innlenda seðlabankanum og stýrivöxtum hans og vaxtastefnu. Þá virka stýrivextirnir svo sannarlega, en þá er skaðinn skeður. Lántakendur sitja þá uppi með erlend lán sem borga þarf af. Það sem verra er, er að ef innlendi seðlabankinn hefur ekki fyrirliggjandi fjármagn (gjaldeyrisvarasjóð), til að lána innlendu bönkunum til að standa skil á afborgunum á erlendu lánunum sem eru í gangi, þá kemur upp staða hliðstæð þeirri og varð við svokallað bankahrun á Íslandi um mánaðarmótin september og október 2008. Bankarnir verða gjaldþrota.
Í dæminu um hinn íslenska lánsfjármarkað undanfarin ár, er fyrirtækjum og almenningi bauðst að taka erlend lán á lágum vöxtum þá sáu þeir hinir sömu lántakendur ekki fyrir sér raunverulegan vaxtakostnað er þeir skrifuðu undir lántökuna. Þeir horfðu fyrst og fremst á hina girnilega lágu vaxtaprósentu á erlenda láninu en hugðu lítt eða ekki að því hvort gengið á íslensku krónuninni gæti veikst t.d. um meira en 100%! Ef þeir hefðu hugað að því sem líklegum möguleika og skoðað málið þannig að þeir væru að skrifa undir lán með yfir 100% vöxtum, jafnvel mörg hundruð prósent vöxtum, þá er ólíklegt að þeir hefðu tekið lánið.
Þar með beinast sjónir að genginu og spurningunni um það hvort það hafi í raun verið snarvitlaust á þessum tíma, eins og lítill kompás innan um stór segulstál. Það er ekki laust við það. Á þessum tíma voru einar mestu fjárfestingar Íslandssögunnar í gangi með tilheyrandi innflæði erlends fjármagns, þ.e. vegna virkjunarframkvæmda. Jafnhliða því var opnað fyrir lánveitingar íslensku bankanna til almennings vegna fasteignakaupa og tilheyrandi innflæði erlends fjármagns í tengslum við það. Eigendur hins erlenda fjármagns höfðu áhuga á því vegna þess að hér voru vextir miklu hærri en erlendis. Af einhverjum ástæðum fengu stjórnendur íslensku bankanna að skuldsetja sig upp á meira en tífalda upphæð landsframleiðslu Íslands óáreittir, en það er enn önnur saga.
Það er líka spurning út af fyrir sig hvers vegna hinir erlendu fjármagnseigendur, erlendu bankarnir, héldu áfram að lána hinum íslensku einkabönkum fé þrátt fyrir hina fáránlega háu skuldsetningu! Þeir með sína sérfræðinga gátu séð, eins og aðrir íslenskir embættismenn og sérfræðingar sem það skoðuðu og áttu að greina, í hvað stefndi. Erlendu aðilarnir tóku samt þá viðskiptalegu áhættu gagnvart einkabönkunum íslensku. Úr því að þau viðskipti þessara aðila gengu ekki getum við spurt á hvaða forsendum aðrir en þeir viðskiptaaðilar, erlendu bankarnir og þrotabú íslensku bankanna, ættu að koma að því uppgjöri. Gerendur í þeim viðskiptum voru íslensku bankarnir (bankaráðin) og hinir erlendu lánveitendur. Ekki íslenskir skattgreiðendur.
PS. Ef þær aðstæður skapast að enginn vill taka lán gæti fjármagnseigandinn jafnvel þurft að greiða einhverjum fyrir að geyma fjármagnið ef engir fýsilegir fjárfestingarvalkostir bjóðast honum. Það er önnur saga og tek ég það fyrir í öðrum sérstökum pistli.
Dægurmál | Breytt 19.8.2009 kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2009 | 23:30
Íslenskar lífslindir og lífsstíll
Umheiminn skortir lífsnauðsynjar sem Ísland á ofgnótt af. Þurfum við samt að biðla til umheimsins um björgun? Hvernig viljum við lifa?
Heiminn skortir lífsnauðsynjar
Hvarvetna í heiminum í dag er vaxandi eftirspurn eftir eftirfarandi gæðum, sem eru megingrundvöllur mannlífs: Mat, ferskvatni, orku og ræktunarlandi. Á mörgum stöðum er nú þegar skortur á þessum lífsnauðsynjum. Lönd, þar sem þéttbýli er mikið og skortur er á þessum þáttum auk landrýmis, hafa m.a. tekið upp á því að leigja ræktanleg landsvæði í öðrum löndum til að framleiða matvörur fyrir eigin heimamarkað til að anna þörfinni þar. Dæmi um það er Suður-Kórea sem leigt hefur stór landsvæði á Madagaskar til langs tíma til ræktunar.
Ísland á ofgnótt lífsnauðsynja
Ísland er aftur á móti afar vel sett að þessu leyti og í mörgu öðru tilliti. Þar er til ofgnótt ferskvatns, raforku og ónýttra möguleika til raforkuöflunar. Þar er fyrirliggjandi þekking og afkastageta fyrir framleiðslu á miklu meira magni af matvörum en þjóðin getur torgað, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Ræktanlegt land og landrými er ríkulegt og pláss er fyrir miklu fleiri íbúa en núverandi fjölda. Þar að auki hefur stjórnarfarið almennt verið stöðugt, séð í alþjóðlegu samhengi, og öryggi þegnanna hefur sömuleiðis verið gott félagslega séð og með því besta í heimi. Þá eru ótalin ýmis önnur gæði landsins, eins og t.d. tiltölulega hreint loft, ýmsir einstæðir kostir fyrir ferðaþjónustu, lega landsins gagnvart nýjum siglingaleiðum í norðri og margt fleira.
Ísland þarf ekki að biðla til umheimsins
Þegar öll þessi grundvallaratriði eru skoðuð í heild og í samanburði við aðstæður annarra landa, bæði í Evrópu og Ameríku, að ekki sé talað um Afríku og Asíu, blasir eftirfarandi staða við: Ísland á yfir að ráða ofgnótt náttúruauðlinda á þeim sviðum sem lífsnauðsynleg eru íbúum jarðar til daglegs lífs, þ.e. drykkjarvatn, matvörur og orku, auk möguleika á að auka framleiðslu á þessum vörum margfalt frá því sem nú er til útflutnings.
Umheimurinn mun biðla til Íslands
Til lengri tíma litið getur heimsmarkaðsverð á þessum afurðum aðeins farið hækkandi vegna vaxandi eftirspurnar erlendis, til bóta fyrir viðskiptakjör landsins og þar með hagsbóta fyrir þjóðina. Það er því ekki furða, eins og nú er ástatt, að lönd í t.d. Evrópu fýsi að fá Ísland í félag við sig til að komast í nánara samband við lífslindir þess.
Heimanmundur og undirlægjuháttur
Þegar staða landsins er að styrkjast stórkostlega hvað þessi atriði varðar má spyrja sig hvort einmitt þá sé viturlegast að kasta þessum auði eins og heimanmundi og í undirlægjuhætti upp í gráðugt ginið á soltnum og þyrstum og óprúttnum viðskiptablokkum sem á móti bjóða eitthvað allt annað en ómengaðar lífslindir; Allt vegna misskilnings Íslendinga á aðstæðum og samningsstöðu sinni!
Íslendingar þurfa ekki að óttast framtíðina
Íslendingar þurfa ekki, til lengri tíma litið, að óttast skort á innflutningsvörum, eins og olíu fyrir fiskiskip sín og landbúnaðartæki né aðra tengda hluti til að halda framleiðslukerfi sínu og samgönguneti gangandi. Útflutningsverðmæti landsins mun fyllilega standa undir slíkum grundvallarvörum og þjónustu erlendis frá. Útlönd verða háðari Íslandi en Ísland þeim og samningsstaða landsins því sterk og batnandi. Þá eru ótaldar hugsanlegar olíuauðlindir við landið og vinnsla þeirra í náinni framtíð, sem væru bara bónus við það sem framar er talið.
Spurning um lifnaðarhætti og lífsstíl
Háð því hvernig mál þróast og hvaða stefna verður tekin af Íslendingum á þessum sviðum þá munu lifnaðarhættir og lífsstíll landsmanna í framtíðinni vissulega mótast af því. Ætlum við að láta það ráðast af umhverfinu og hagsmunum annarra þjóða, eða ætlum við að ráða vegferð okkar og framtíðarhag sjálf, t.d. með meiri áherslu á sjálfbærni við nýtingu landsins gæða en hingað til?
Áður en við hugsanlega óskum eftir inngöngu í viðskiptablokkir skulum við að minnsta kosti gera okkur grein fyrir raunverulegu verðmæti auðlinda og möguleika okkar í framtíðinni og vega og meta mismunandi valkosti varðandi lifnaðarhætti og lífsstíl og stöðu okkar í samfélagi þjóðanna í því ljósi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)