Færsluflokkur: Menntun og skóli
15.8.2024 | 17:34
Raunverulega samræmd próf æskileg
Mér finnst að samræmd próf á landsvísu og yfirferð þeirra miðlægt skuli viðhöfð; Í öllum eða sem flestum fögum upp úr síðasta bekk grunnskóla, hliðstætt og átti sér stað á tímum landsprófsins um og upp úr miðri síðustu öld. Annað er ekki nægilega gagnsætt mat og býður upp á alls kyns tortryggni milli allra aðila.
Í ljósi breyttra aðstæðna í samfélagi nútímans með allri sinni tækni og sérhæfingu starfa í atvinnulífinu gæti þetta, mjög líklega og æskilega, kallað á aðgreiningu náms og nemenda í efri árgöngum grunnskóla eftir nokkrum mismunandi sviðum þekkingar og hæfni sem nemendur gætu þá valið á milli og þeim leiðbeint um. Nemendur væru þá prófaðir samræmt eftir slíkum námssviðum. Nemandinn og framhaldsskólinn vita þá á hvaða forsendum lokaeinkunn nemandans er fengin, og þar af leiðandi hvort viðkomandi hafi helst forsendur og eigi þar með erindi í tiltekið framhaldsnám fremur en annað.
Samræmd próf fela auk þess í sér mikilvægan hvata fyrir nemendur til að leggja á sig vinnu til að ná markmiðum sínum í námi með hliðsjón af því hvert þeir stefna hvað nám og störf varðar í framhaldi af því. Það er mikilvægt atriði svo að þeir nemendur sem í reynd hafa bóklega námshæfileika, en ella sýna það ekki vegna námsleti eða slugs og kæruleysis á unglingsárunum, fyrirgeri ekki raunverulegum námsmöguleikum sínum til framtíðar. Ekkert fæst án fyrirhafnar og alls ekki raunveruleg og bitastæð menntun. Engum er greiði gerður með því að koma honum í eitthvað sem hann ræður ekki við.
Niðurstöður slíkra samræmdra prófa gefa sterkar vísbendingar um í hvaða átt námslegir og þar með starfslegir hæfileikar hvers nemanda liggja. Svo sem grundvallarlega séð hvort hæfileikar liggja til frekara náms að og upp á háskólastig eða fremur annað svo sem á starfstengdar iðnbrautir eða annað. Það er hvorki hagkvæmt né gott fyrir nemendur að vera leiddir inn á svið náms sem þeir líklega ráða svo ekki við þegar á reynir og lengra kemur. Þar myndi meðal annars dýrmætur tími og kostnaður geta farið forgörðum, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið.
Í umræðunni um boðað samræmt matsferli í grunnskólum vakna ýmsar spurningar. Svo sem um hvort meiningin sé sú með áformuðum matsferli og tilsvarandi miðlægri skráningu að lokaniðurstaða hans í hverju tilviki verði einhvers konar samantekt um getu og færni nemandans í nokkuð víðum skilningi, og ef til vill með tilheyrandi ályktunum um mögulegt framhald náms- og/eða starfslega séð, og jafnframt sem einkunnaskjal nemandans upp úr grunnskóla? Meðal annars þá sem grunnur fyrir hina mismunandi framhaldsskóla til að meta umsóknir nýnema um námsvist? - Vegna þess að einkunn í sjálfri sér er marklaus án tilsvarandi upplýsinga um forsendur hennar, grunn og mælikvarða.
Önnur spurning snýr síðan að því hverjir muni hafa og fá aðgang að skráðum upplýsingum í fyrirhuguðu miðlægu skólakerfi. Mun einstaklingurinn (núverandi og fyrrverandi nemendur sem skráðir verða í kerfið) geta gefið öðrum aðgang að upplýsingum um sig, t.d. skóla sem sótt er um nám í og fyrirtækjum þar sem sótt er um starf? Og, hvaða opinberu aðilar munu hafa aðgang að upplýsingunum auk skólakerfisins? Lögregla, dómskerfi, Alþingi, aðrar stofnanir?
Óttast að loðin svör séu vísbending | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2015 | 10:26
Menntunarstefna og atvinnulíf
Mikið ósamræmi er milli menntunarstefnu og/eða áherslna í annars vegar framboði á menntunarleiðum og tilsvarandi eftirspurn og hins vegar þróun á atvinnumöguleikum eftir starfstegundum.
Aragrúa af fólki er hleypt inn á alls konar námsbrautir á háskólastigi þar sem aðeins brot af fjölda útskrifaðra nemenda mun fá störf við hæfi, þ.e. þeirra sem ekki munu detta út úr námi sökum vangetu, áhugaleysis eða annars; Með tilheyrandi sóun kostnaðar bæði í skólakerfinu sökum brottfalls nemenda og hjá viðkomandi einstaklingum eftir námskostnað sem nýtist síðan ekki til viðkomandi starfa.
Yfirvöld menntamála hafa staðið sig illa í því að kortleggja vænta þörf atvinnulífsins, m.a. með hliðsjón af stefnu hins opinbera í atvinnuuppbyggingu, fyrir hinar ýmsu tegundir starfa og aðlaga framboð á menntun, námstegundir og fjölda einstaklinga, með hliðsjón af því.
Hér er þörf á raunsærri og hagkvæmri menntunarstefnu þar sem einstaklingar eru leiddir eins og mögulegt er eftir hæfni þeirra og áhuga inn á rétta braut í náms- og starfsvali eins snemma í skólakerfinu og unnt er.
Til hvers er verið að mennta ótölulegan fjölda einstaklinga á einhverju sviði þar sem vitað er að aðeins brot af þeim fær störf á því sviði að námi loknu? Væri þeim fjármunum ekki betur varið í t.d. uppbyggingu heilbrigðiskerfisins með samkeppnishæfum launum fyrir heilbrigðisstarfsfólk, hvert á sínu sviði?
Háskólamenntun líkist stúdentsprófi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.8.2014 | 19:52
Geta sumir fréttamenn ekki lesið sér til skilnings?
Það er sýnist mér orðin áleitin og grafalvarleg spurning hvort sumir fréttamenn geti ekki lesið sér til skilnings; Að það sé ekki bara bundið við 15 ára aldur grunnskóladrengja. Maður fer að hafa áhyggjur út af þessu; Ég verð nú að segja það, í ljósi meðtengdrar fréttar og fréttaskýringa.
Þarf að auka yndislestur og/eða taka upp lestrarkennslu í námi fjölmiðlafræðinga?
Fullyrti ekki að hegðun fólks breyttist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.7.2013 | 16:56
Villulausar fréttir á mbl.is
Greinilegt er að umræddur verðlaunahafi í prófarkalestri og prófarkalesari á Morgunblaðinu er ekki mikið nýttur sem slíkur, ef nokkuð, við birtingu frétta á mbl.is.
Mér finnst að rekstraraðilar Morgunblaðsins ættu að sjá sóma sinn í því að fréttapistlar á mbl.is séu vel prófarkalesnir, bæði með tilliti málvillna og stafsetningar. Eða þá að hafa fréttaritara við þessi störf sem jafnframt eru vel að sér í íslenskri réttritun og sem mega vera að því að yfirlesa eigin skrif áður en þau eru birt á vefnum.
Þar sem mbl.is er einn mest lesni fréttamiðillinn á netinu af þeim sem enn hafa lestrarkunnáttu og nennu til þess að glugga í fréttir þar þá skiptir það miklu máli að þar sé vel vandað til verka. "Það læra börnin sem fyrir þeim er haft", segir máltækið, en það á náttúrulega við um "börn" á öllum aldri.
Það er ömurlegt ef mbl.is elur á og styrkir rangritun hjá þeim sem ekki eru nægilega vel að sér í íslenskri réttritun fyrir.
Villulaus prófarkalesari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2013 | 12:00
Losun mannafls
Það sem felst í þessum hugmyndum um styttingu skólatímans um allt að tvö ár er m.a. losun tveggja heilla árganga af færu vinnuafli út á vinnumarkaðinn, e.t.v. um átta þúsund manns. Þessi fjöldi kæmi um síðir aukalega inn á vinnumarkaðinn tilsvarandi fyrr innan styttra námstímakerfis en nú er.
Þar til viðbótar kemur svo umtalsverður hluti þess kennarafjölda sem nú er í fullri kennslu en myndi losna um við styttri námstíma á grunnskóla- og framhaldsskólastigi.
Spurningin er hvað gera á við allan þennan mannafla þegar þar að kæmi ef ekki hefur þá tekist að skapa (viðeigandi) störf fyrir fólkið.
Einnig hefur skólafólk á framhaldsskólaaldri og jafnvel yngri en það notað sumartímann til að afla sér tekna til að fjármagna nám sitt að hluta. Verði árlegur námstími lengdur þannig að sumarfrí nemenda (og kennara) verði ekki lengra en nokkrar vikur, hvernig á þá að bregðast við tekjumissi nemenda?
Verða þeir efnaminni þar með útilokaðir frá námi?
Eða, verður tekið upp hnitmiðaðra áfangakerfi á framhaldsskólastigi þar sem nemendur geta tekið sér hlé frá námi eftir atvikum þótt virkur námstími hvers og eins verði styttri en nú er?
Hvað yrði um þá sem ekki fengju vinnu eftir að námstíminn hefur verið styttur, sökum offramboðs á vinnuafli? Ef sú staða kemur upp væri berlega komið í ljós að núverandi "langa" námstímakerfi felur í sér dulið atvinnuleysi. Þá má velta vöngum yfir því hvort betra sé að hafa unga fólkið í skóla með öllum þeim beina kostnaði sem skólakerfið felur í sér eða hafa það á atvinnuleysisbótum ella.
Þessa og fjölmarga aðra þætti, ekki síst félagslega, þarf að skoða og kortleggja vandlega áður en hlaupið er í að stytta námstíma nemenda á grunn- og framhaldsskólastigi.
Þá þarf ekki síður að endurskipuleggja námsframboðið og innihald námsins á hverri námsbraut með tilliti til starfsvals hvers og eins eftir getu hans og áhuga sem og eðlilegri þörf atvinnulífs og samfélags fyrir mismunandi þekkingu og færni. Ef til vill væri nærtækast og réttast að byrja á að skoða þessa þætti fyrst.
Vill útskrifa stúdenta 18 ára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.3.2013 | 15:57
Bifröst á skýi minninganna
Alltaf er jafn hressandi að sjá þessa mynd af Bifröst sem hefur verið tekin áður en hryllilega spanskgrænuklessu-steinkassabyggingin var reist fyrir framan gamla skólann og útsýnið þar með tekið frá honum og umhverfinu sem hér sést í forgrunni rústað. Sömuleiðis hvarf gamla heimsýnin að Bifröst með þessa fallegu byggingu í forgrunni þegar ekið er upp Norðurárdalinn áleiðis þangað. Það var ekki einu sinni reynt að hafa nýbyggingarómyndina í sama eða svipuðum stíl og þá gömlu t.d. með hallandi þaki og sömu litum. Það er nú svo.
En, til fyrirmyndar er hjá núverandi stjórnendum skólans að leitast við að minnka sóun á pappír og bleki. Mætti ég svo minna á að e.t.v. nýtist MS Office 365 OneNote-kerfið til vistunar og flokkunar á "útprentunum" í stað þess að prenta skjöl og töflur úr Office á pappír; Og vista minnisatriði á SkyDrive, á "Skýi minninganna".
Prenta 75 þúsund færri blaðsíður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2012 | 11:29
Sannfæring á fölskum forsendum
Faðir og móðir myrða táningsdóttur sína með köldu blóði á hryllilegan og hægvirkan hátt fyrir þær "sakir" að hafa "gjóað augunum á unglingspilt". Þetta gera þau að því er virðist vegna trúarsannfæringar sinnar sem þeim hefur verið innrætt í krafti trúarbragða og á vegum viðkomandi fræðara og trúarleiðtoga. Firringin kórónast síðan með því að guði er kennt um glæpinn, með því að halda því fram að hann hafi viljað að þau dræpu barn sitt! - Hvílík rökleysa!
Þetta er ógeðfellt dæmi um það er trúarbrögð "verða ill", eins og trúarbragðafræðingurinn Charles Kimball prófessor fjallar um á skilmerkilegan hátt í bók sinni When Religion Becomes Evil: Five Warning Signs (HarperSanFrancisco 2002), m.a. um blinda hlýðni eins og hér um ræðir. Trúarleiðtogar bera hér þunga ábyrgð vegna þess að það eru þeir sem réttlæta og viðhalda þeirri túlkun sem meðal annars er iðkuð á þennan harðneskjulega hátt.
Þessi blinda trúariðkun fyrirfinnst þó ekki aðeins í löndum eins og því sem sagt er frá hér í viðtengdri frétt.
Hún er líka til staðar í ýmsum sértrúarsöfnuðum á Vesturlöndum og ekki síður í hópum sem berjast fyrir einhverjum málefnum á veraldlegu sviði í krafti sannfæringar sem þeir hafa viðtekið og gert að sínum. Sem betur fer er þó ekki algengt að slík iðkun leiði til morða.
Nærtækt dæmi af því tagi er svokölluð "Teboðshreyfing" í Bandaríkjunum. Frá henni, baráttumálum hennar, starfsaðferðum og bakhjörlum var greint í athyglisverðum og sjokkerandi heimildarþætti, "The Billionaires' Tea Party", sem sýndur var í Sjónvarpinu/RÚV 31.10.2012. Þetta er kallað grasrótarhreyfing þar sem "venjulegt" fólk úr hópi almennings lætur sannfærast af pólitískum markmiðum undir merkjum frelsis sem í reynd eru andstæð velferð sama almennings en gagnast stórum fjölþjóðlegum fyrirtækjum sem fjármagna m.a. öflugar auglýsingaherferðir hreyfingarinnar. Dæmi um það er barátta hreyfingarinnar gegn viðleitni núverandi forseta landsins um umbætur til handa almenningi á sviði sjúkratrygginga.
Þetta eru allt dæmi um það er einstaklingar láta af hendi sjálfstæði sitt og/eða undirgangast kúgun og þöggun við skoðanamyndun um mikilvæg málefni og gera sannfæringu og/eða boð annarra að sinni sannfæringu.
Þetta gerist þó oft og iðulega "í góðri trú" og vegna þeirrar grunnhyggni og leti eða tímaskorts að hafa ekki fyrir því að afla sér upplýsinga og þekkingar um viðkomandi málefni til að taka síðan afstöðu á gagnrýnan hátt og á eigin forsendum og í samræmi við leiðsögn eigin samvisku. Í versta falli verður persónuleg sannfæring þá mótuð á fölskum forsendum.
Segir morð á dóttur vilja guðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.6.2012 | 15:32
"Paradís á Jörðu"
Ekki er að undra ásókn í námsdvöl að Bifröst. Þar er auðvelt að stilla saman þá þrjá þætti sem ég tel stuðla hvað mest að góðum námsárangri:
1) Námsaga með tilhlýðilegri örvun og hvatningu
2) líkamlega hreyfingu (ekki síst utanhúss) og
3) mannleg samskipti svo sem í félagslífi og samstarfi í nærsamfélaginu.
Þegar þetta þrennt fer saman í þeirri gleði, ánægju og sjálfseflingu sem kemur til við þetta að Bifröst kemur undursamlegur árangur í ljós þannig að nemandinn verður sem ný manneskja.
Komist hann á þetta stig mun hann minnast námsdvalar sinnar að Bifröst sem upplifunar á nokkurs konar "paradís á Jörð". Ef ekki vegna þessa og annars, þá vegna umhverfisins.
Svo mælist hollvini.
Mikil gróska í starfi Bifrastar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.6.2011 | 01:08
Áhersluþrenning fyrir árangursríkt nám
Mín reynsla er sú að þegar þrenns konar áherslur fara saman í góðu og viðeigandi jafnvægi við nám þá er árangurinn vís í samræmi við það. Þessi þarfa "þrenning" er eftirfarandi:
Agi og viðvarandi gott skipulag við námsvinnuna, góð og skemmtileg hreyfing og útivist þar sem reynt er á líkamann og honum jafnframt við haldið með hollu mataræði, og þátttaka í góðu og skemmtilegu félagslífi af einhverju tagi í nánu og samstiga nærsamfélagi. Þegar öllum þessum þáttum er sinnt í góðu og "heiðarlegu" jafnvægi, daglega og vikulega, verða þeir allir skemmtilegir og tilhlökkun að koma að næsta þætti hverju sinni til skiptis. Þá verður námið ekki leiðinlegt og þreytandi.
Forsendur fyrir þessari áhersluþrenningu til árangursríks náms og innihaldsríks lífs meðan á námi stendur eru ríkulega til staðar að Bifröst í Borgarfirði. Öfundsvert er að stunda nám þar.
Margir vilja nema á Bifröst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2011 | 00:52
Upplýsing háskólakennara
Ég hef áður í spurn eftir umræðu háskólakennara og viðkomandi embættismanna í bloggi og dagblöðum, um t.d. efnahagsmál landsins, velt fyrir mér hvort þögn þeirra um slík mál stafi af hræðslu þeirra við að tjá sig á opinberum vettvangi af einhverjum ástæðum. Það er afleit staða. Svona á standandi fæti koma mér einungis tveir háskólaprófessorar í hug sem hafa verið áberandi og duglegir við að viðra skoðanir sínar um landsmálin á opinberum ritvangi, hvor með sína hugmyndafræði og túlkanir að vopni. Hvað eru allir hinir að hugsa?!
Almenningur á það skilið að t.d. háskólakennarar og ekki síst fólk með doktorsgráðu marki sér tíma til að rita á skiljanlegu máli á grunni menntunar sinnar um mál sem eru ofarlega á baugi hverju sinni og leitist með því að varpa fræðilegu ljósi á umræðuna og vega og meta hina margvíslegu fleti sem iðulega eru á hverju máli á grundvelli fræða sinna.
Ég óska Bryndísi Hlöðversdóttur, hinum nýja rektor Háskólans á Bifröst, til hamingu og farsældar í brautryðjandi starfi. Hún virðist samkvæmt meðfylgjandi frétt drepa tilhlýðilega á þetta mikilvæga atriði í innsetningarræðu sinni og eru slík hvatningarorð skólayfirvalda með svo áberandi hætti löngu tímabær. Hún setur hér gott fordæmi fyrir kollega sína.
Í þessu sambandi vil ég minna "þögula" háskóladoktora og -kennara á grundvallarrit um rétt opinberra starfsmanna til að tjá sig sem sérfræðingar utan starfs síns, þ.e. ekki sem embættismenn, heldur sem einstaklingar. Það er ritgerðin "Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?" eftir Immanuel Kant (1724-1804), sem hann samdi í einveldisríkinu Prússlandi 1784. Ritið er til á íslensku og var birt í Skírni nr. 167, 1993, s. 379-386. Kant segir þar í upphafi greinar sinnar:
"Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum þess ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á. Ósjálfræði er vanhæfni mannsins til að nota eigið rökvit án handleiðslu annarra. Maðurinn á sjálfur sök á þessu ósjálfræði þegar orsökin er ekki skortur á hyggjuviti heldur vöntun á einurð og hugrekki til að nota hyggjuvit sitt án handleiðslu annarra. Einkunnarorð upplýsingarinnar eru því "Sapere aude!", hafðu hugrekki til að nota þitt eigið hyggjuvit!".
Takið því til máls góðir heilar! Þið hafið fullan rétt á því og eigið ekki að þurfa að óttast einhverjar refsingar af yfirmönnum.
Hvað segið þið um t.d. kosti og galla aðildar Íslands að ESB, samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og forsendur fyrir nýjum áherslum í menntunar- og atvinnumálum, og orku- og auðlindamálum Íslands svo fáein mikilvæg umræðusvið séu nefnd? Hverjar eru líklegar afleiðingar mismunandi valkosta á þessum sviðum?
Háskólafólk óttist ekki að tjá sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)