15.8.2024 | 17:34
Raunverulega samræmd próf æskileg
Mér finnst að samræmd próf á landsvísu og yfirferð þeirra miðlægt skuli viðhöfð; Í öllum eða sem flestum fögum upp úr síðasta bekk grunnskóla, hliðstætt og átti sér stað á tímum landsprófsins um og upp úr miðri síðustu öld. Annað er ekki nægilega gagnsætt mat og býður upp á alls kyns tortryggni milli allra aðila.
Í ljósi breyttra aðstæðna í samfélagi nútímans með allri sinni tækni og sérhæfingu starfa í atvinnulífinu gæti þetta, mjög líklega og æskilega, kallað á aðgreiningu náms og nemenda í efri árgöngum grunnskóla eftir nokkrum mismunandi sviðum þekkingar og hæfni sem nemendur gætu þá valið á milli og þeim leiðbeint um. Nemendur væru þá prófaðir samræmt eftir slíkum námssviðum. Nemandinn og framhaldsskólinn vita þá á hvaða forsendum lokaeinkunn nemandans er fengin, og þar af leiðandi hvort viðkomandi hafi helst forsendur og eigi þar með erindi í tiltekið framhaldsnám fremur en annað.
Samræmd próf fela auk þess í sér mikilvægan hvata fyrir nemendur til að leggja á sig vinnu til að ná markmiðum sínum í námi með hliðsjón af því hvert þeir stefna hvað nám og störf varðar í framhaldi af því. Það er mikilvægt atriði svo að þeir nemendur sem í reynd hafa bóklega námshæfileika, en ella sýna það ekki vegna námsleti eða slugs og kæruleysis á unglingsárunum, fyrirgeri ekki raunverulegum námsmöguleikum sínum til framtíðar. Ekkert fæst án fyrirhafnar og alls ekki raunveruleg og bitastæð menntun. Engum er greiði gerður með því að koma honum í eitthvað sem hann ræður ekki við.
Niðurstöður slíkra samræmdra prófa gefa sterkar vísbendingar um í hvaða átt námslegir og þar með starfslegir hæfileikar hvers nemanda liggja. Svo sem grundvallarlega séð hvort hæfileikar liggja til frekara náms að og upp á háskólastig eða fremur annað svo sem á starfstengdar iðnbrautir eða annað. Það er hvorki hagkvæmt né gott fyrir nemendur að vera leiddir inn á svið náms sem þeir líklega ráða svo ekki við þegar á reynir og lengra kemur. Þar myndi meðal annars dýrmætur tími og kostnaður geta farið forgörðum, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið.
Í umræðunni um boðað samræmt matsferli í grunnskólum vakna ýmsar spurningar. Svo sem um hvort meiningin sé sú með áformuðum matsferli og tilsvarandi miðlægri skráningu að lokaniðurstaða hans í hverju tilviki verði einhvers konar samantekt um getu og færni nemandans í nokkuð víðum skilningi, og ef til vill með tilheyrandi ályktunum um mögulegt framhald náms- og/eða starfslega séð, og jafnframt sem einkunnaskjal nemandans upp úr grunnskóla? Meðal annars þá sem grunnur fyrir hina mismunandi framhaldsskóla til að meta umsóknir nýnema um námsvist? - Vegna þess að einkunn í sjálfri sér er marklaus án tilsvarandi upplýsinga um forsendur hennar, grunn og mælikvarða.
Önnur spurning snýr síðan að því hverjir muni hafa og fá aðgang að skráðum upplýsingum í fyrirhuguðu miðlægu skólakerfi. Mun einstaklingurinn (núverandi og fyrrverandi nemendur sem skráðir verða í kerfið) geta gefið öðrum aðgang að upplýsingum um sig, t.d. skóla sem sótt er um nám í og fyrirtækjum þar sem sótt er um starf? Og, hvaða opinberu aðilar munu hafa aðgang að upplýsingunum auk skólakerfisins? Lögregla, dómskerfi, Alþingi, aðrar stofnanir?
Óttast að loðin svör séu vísbending | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)