Byggja sjálfir með samtakamætti

Sú öfugsnúna þróun á fasteignaverði sem fyrrv. forstjóri Íbúðalánsjóðs dregur hér upp mynd af og sem hann telur orsakast af lækkandi vöxtum, að íbúðaverð muni hækka með lækkandi vöxtum, undirstrikar hið augljósa að framboð af íbúðarhúsnæði er ekki nóg. Á það er þó ekki minnst í viðtengdum fréttapistli og mætti fremur halda að viðmælandinn sjái lækkandi vöxtum margt til foráttu út af fyrir sig og íbúðakaupendum til íþyngingar. 

Aukið framboð á íbúðahúsnæði myndi hins vegar leiða til breyttrar sviðsmyndar.

Til viðbótar við of lítið framboð á íbúðarhúsnæði sem skýringu á of háu fasteignaverði og of hárri húsaleigu á markaðnum má ef til vill benda á að það sem þó er til af tómu íbúðahúsnæði eða í byggingu sé ekki nægilega mikið í "réttum" höndum séð frá sjónarhóli íbúðarkaupanda, þ.e. of mikið magn í eigu arðs-hámarkandi fjárfestingaraðila og/eða fasteignafélaga eða einstaklinga sem hafa þann tilgang fyrst og fremst að hagnast sem mest á húsnæðinu annað hvort með endursölu eða útleigu. Sá milliliðakostnaður er einstaklingum umtalsverður baggi við kaup og leigu á húsnæði.

Segja má að þetta ástand sé að hluta til um að kenna aðgerðaleysi einstaklinganna sjálfra, sem húsbyggjenda. Ef til vill einnig skorti á viðeigandi hvata og regluverki af hálfu hins opinbera.

Einstaklingar og fjölskyldur sem vantar húsnæði gætu vissulega tekið sig saman, í viðeigandi hópum, um að mynda t.d. byggingarsamvinnufélög með ákveðnar reglur þar sem öll stig undirbúnings- og byggingarvinnunnar upp að tilteknu byggingarstigi íbúða/húsa væru boðin út; til dæmis upp að fokheldisstigi eða "tilbúnu undir tréverk" eða tilbúnu til innflutnings. Með því móti væru einstaklingarnir, húsbyggjendur sjálfir, að fá húsnæði sitt því sem næst á kostnaðarverði, hvort heldur sem er í eigu eða leigu. Þeir væru þar með lausir við milliliðakostnað ávöxtunarkrefjandi fasteignafélaga eða byggingarfélaga þriðja aðila.

Þetta krefst að sjálfsögðu þess meðal annars að einstaklingarnir sem mynda slík byggingarsamvinnufélög hafi aðgang að nægilegu lánsfjármagni fyrir byggingu sína, þ.e. ekki síðri möguleikum en bjóðast ella við kaup á tilbúinni íbúð af annars konar byggingaraðilum sem byggja og selja íbúðir til endursölu. Þar sem of takmarkað framboð ríkir hefur verð hjá hinum síðar nefndu tilhneigingu til að vera tilsvarandi hærra, eðli málsins samkvæmt.

Með nægilegri viðleitni og framtakssemi íbúðakaupenda í þessa veru, að byggja sjálfir með eigin félagi, gætu þeir sjálfir með athafnasemi sinni smám saman og sem heild að miklu leyti komið í stað hinna ávöxtunarkröfuhörðu fasteignafélaga.


mbl.is Vaxtalækkanir hækka íbúðaverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband