Nýtt jákvætt tón-fréttastef í Sjónvarpinu

Ég vonaði að kynnt yrði nýtt fréttastef í Sjónvarpinu á ársafmæli hrunsins. Sú von brást - í bili. Þess vegna vek ég athygli á eftirfarandi atriðum og legg fram tillögu til úrbóta, fólkinu í landinu til heilla.

Ástæðan er sú að mér finnst þetta drungalega, ömurlega og niðurdrepandi dómsdagsstef vera samnefnari og boðberi hrollvekjandi tíðinda í hvert einasta sinn sem það heyrist á undan fréttatímum í Sjónvarpinu. Sérstaklega endastefið með dimmmmmmmu hamarshöggunum-mmmm á lágu bassanótunum á píanóinu.
Þetta varð einhvern veginn samofið kvíðvænlegum fréttum oft á dag við hrunið síðasta haust. Í hvert sinn sem það heyrist í aðdraganda fréttatíma taka magavöðvarnir kipp, skrokkurinn stífnar, köldum svita slær út um allan líkamann og stjarfir eða titrandi og á nálum setjast sjónvarpsáhorfendur sem negldir fyrir framan tæki sín eins og fórnarlömb sem bíða dómsins. Þetta er ekki uppbyggilegt fyrir fólk og mál og þörf að linni.

Núna erum við búin að hafa þennan ömurlega og ógnvekjandi drungatón hamrandi í eyrunum í heilt ár sem sífelldan boðbera óheillavænlegra og neikvæðra frétta. Nú er nóg komið. Nú eru tímamót.
Nú þarf að breyta til og skipta yfir í jákvæðari, uppbyggilegri og glaðlegri tón sem vekur bjartsýni og eykur kraft og dug.
Nú þurfum við boðbera góðra frétta klingjandi í eyrunum daglega, oft á dag, sem boðar og undirstrikar nýja,  batnandi og betri tíma. Tíð uppbyggingar.

Undir öllum kringumstæðum er þjóðþrifamál að breyta um tónstef hið snarasta og segja þar með skilið við þetta stikkorðs-ígildi hrunsins.

Væri til of mikils mælst, kæra rúv, að hugleiða málið og fá snjalla tónstefjahöfunda til að framleiða skemmtileg stef í jákvæðum og glaðværum anda í ljósi ofangreindra atriða og taka það í notkun eins fljótt og mögulegt er? Stefin mega gjarnan vera fleiri en eitt, til að hafa til skiptis eftir tilefni.

Hvernig væri til dæmis að efna til samkeppni um svona fréttastef og láta þjóðina síðan kjósa sín stef með því að velja á milli frambærilegra tillagna?

PS. Ég tek það fram, að fyrst þegar umrætt tónstef var tekið upp í Sjónvarpinu fannst mér stefið mjög flott og töff og viðeigandi inngangsstef fyrir fréttatíma, enda er það frábært út af fyrir sig sem slíkt og höfundi sínum til sóma; það er ekki málið. Ég er einungis að benda á að nú finnst mér þetta magnaða stef orðið svo samgróið öllum hinum neikvæðu tilfinningum í tengslum við hrunið, hliðstætt því er góð kvikmyndatónlist nær að magna upp hughrif undir dramatískum og óhugnanlegum atburðum í viðkomandi kvikmyndaratriðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband