Miskunnsami Miðnæturkúrekinn

Ég sá kvikmyndina The Midnight Cowboy (TMC, frá 1969) í Sjónvarpi rúv í gærkveldi 4.9.2015, með Jon Voight og Dustin Hoffman í aðalhlutverkum. Einhvern veginn hefur það atvikast svo að ég hafði aldrei séð hana áður og er það með ólíkindum.

Ekki er að furða að kvikmyndin hafi unnið til þriggja Óskarsverðlauna á sínum tíma, auk þess að vera tilnefnd þar til fjölda annarra verðlauna. Meðal annars voru báðir aðalleikararnir tilnefndir sem besti karlleikari í aðalhlutverki, og það verðskuldað. Á Óskars-hátíðinni 1970 vegna mynda frá 1969 fékk hún sem sé verðlaun fyrir „Besta kvikmyndin“, „Besti leikstjórinn“ og „Besta handrit“.
Þarna keppti hún m.a. við „grín“-hasarkvikmyndina „Butch Cassidy and the Sundance Kid“ sem að vonum var einnig tilnefnd til margra verðlauna auk annarra góðra.
Þá finnst mér einnig athyglisvert að TMC hafði þá verið flokkuð sem X-mynd, þ.e. ekki sýningarhæf fyrir fólk yngra en 18 eða 21 árs. Ekki er það furða þar sem stungið er á ýmsum viðkvæmum þjóðfélagsmeinum og tabúum og fordómum sem þá voru ríkjandi í Bandaríkjunum og víðar, og eru jafnvel enn.

Það sem mér finnst einna athyglisverðast við TMC á heildina litið er persóna Joe Buck sem Jon Voight leikur, þ.e. persónueinkenni hans sem koma fljótlega og sífellt betur í ljós í viðbrögðum hans við nýjum og óvæntum aðstæðum.
Þrátt fyrir hans persónlegu drauma um fjárhagslega velmegun sem í upphafi hvöttu hann til að leita á nýjar slóðir „hinum megin við girðinguna“ þar sem hann telur „grasið grænna“, í stórborginni New York fremur en í heimabæ sínum einhvers staðar „hvergi“ í Texas, þá er hann í eðli sínu fljótur að fórna eða fresta uppfyllingu þeirra drauma í staðinn fyrir hjálp við aðra. Jafnvel þá sem svíkja hann og pretta og hafa af honum fé vegna þess hve auðtrúa hann er og ætlar engum illt að fyrra bragði vegna eigin eðlislægu góðmennsku; Hann kemst yfirleitt alltaf við þegar hann upplifir og skilur eymd þeirra og fyrirgefur þeim þá eða hjálpar eftir efnum og aðstæðum fremur en að hefna sín eða láta þá eiga sig.
Hann fórnar meira að segja fjárhagslegum „frama“ sínum, sem hann loks eygir innan seilingar, fyrir félaga sinn sem í upphafi samskipta þeirra hafði þó blekkt hann lúalega og miskunnarlaust. Síðustu peninga sína notar hann til að kaupa lyf og föt handa honum og fara síðan af stað með hann úr kuldanum í New York í hlýjuna suður í Flórída, draumalands félagans. Út í óvissuna þar sem hann hugðist breyta lífsstíl sínum til að sjá þeim félögunum báðum farborða.

Í þessari sögu í TMC finnst mér afar skýr og greinileg skírskotun til hinnar áhrifamiklu dæmisögu um „Miskunnsama Samverjann“ sem frá er greint í Nýja testamentinu (Lk 10.29-37). Varla getur verið tilviljun að þessi magnaða kvikmynd skuli vera valin til sýningar í Sjónvarpinu einmitt nú þegar þar og víðar er með ýmsu móti hvatt til samhygðar með flóttafólki úti í heimi og rekinn sterkur áróður fyrir móttöku á því hérlendis án þess að búið sé að ræða hvernig að því skuli staðið.
Spurningin er þó hverjum eigi helst að hjálpa og hvernig og hvar svo að raunverulegu og góðu gagni komi. Óðagot og skammtímahugsun mega ekki verða til þess að stundarfriður í samviskunni verði keyptur dýru verði með ósætti og ófriði í samfélaginu í kjölfarið og til lengri tíma litið.


mbl.is Fóru yfir stöðu flóttamannamála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband