Fordómar eða túlkandi skoðun?

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag, 14.5.2015 er viðtalsgrein við sr. Hildi Eir Bolladóttur með yfirskriftinni „Segir presta ekki hafa frelsi til fordóma“. Er viðtalið til komið vegna þess að „nokkrir prestar og kirkjuþing unga fólksins vilja að biskup beiti sér fyrir afnámi umdeildrar reglu sem heimilar prestum að neita samkynhneigðum pörum um giftingu“, en um þetta hefur biskup ekki tjáð sig ennþá.

Þar viðrar sr. Hildur þá skoðun sína að „þjónusta okkar prestanna við náungann getur ekki verið háð fordómum okkar. Það er ekki hægt að gefa prestum rými til að þjóna út frá fordómum sínum.“

Þarna finnst mér ítrekað koma fram misnotkun á orðinu „fordómar“.
Hliðstæð misnotkun á orðinu hefur reyndar einnig verið mjög áberandi í opinberri almennri orðræðu undanfarið ár um til dæmis innflytjendamál og framandi trúarbrögð og trúarmenningu og menningarhefðir í því sambandi; en það er önnur saga.

Með notkun sinni hér á orðinu „fordómar“ er sr. Hildur óbeint að ásaka presta um vanþekkingu á helgiritum kirkjunnar að því er varðar atriði um samkynhneigð. Þar hlýtur hún að hafa rangt fyrir sér.
Bæði hún sjálf og aðrir prestar og guðfræðimenntaðir einstaklingar (og fleiri) vita væntanlega vel hvað fram kemur í Biblíunni um þessi atriði, bæði í Gamla testamentinu (Biblíu Hebrea) og í bréfum Páls postula í Nýja testamentinu sem er meginrit kristninnar. Mér finnst því að ekki sé hægt að ásaka prestana og þjóðkirkjuna um „fordóma“ vegna þessa.
Þetta sem sr. Hildur bendir á og gagnrýnir hjá ofangreindum aðilum ber hins vegar fremur að líta á sem túlkun þeirra og skoðun á þessum textum Biblíunnar varðandi samkynhneigt fólk. Það sem sr. Hildur kallar hér „fordóma“ þeirra vil ég þannig heldur kalla skoðun og túlkun viðkomandi aðila sem byggir á þekkingu þeirra og viðhorfum. Þetta er með öðrum orðum túlkandi skoðun þeirra.

Fordóma einhvers ætti aftur á móti að kalla það þegar hann heldur fram einhverri skoðun eða yfirlýsingu án þess að vera búinn að afla sér upplýsinga og þekkingar um viðkomandi atriði og slær einhverri fullyrðingu fram að óathuguðu máli eða hefur eftir skoðanir annarra án eigin ígrundunar. Má í því sambandi benda á skilgreiningu í Íslenskri orðabók þar sem segir um orðið fordóm: „Ógrundaður dómur eðs skoðun ... andúð, óbeit sem ekki styðst við reynslu, rök eða þekkingu, hleypidómur“ Íslensk orðabók 3. Útg., ritstj. Mörður Árnason. Edda 2002, s. 365). Takið eftir: „... sem ekki styðst við reynslu, rök eða þekkingu.

Að því er varðar umræðuefni sr. Hildar þá er ég sammála henni og formanni Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar, sr. Sigurvini Lárusi Jónssyni, og fleirum skoðanasystkinum hans sem vísað er til í grein um málið í ofangreindu blaði á s. 6. Mér finnst núgildandi regla þjóðkirkjunnar um „samviskufrelsi presta“ sem heimilar prestum Þjóðkirkjunnar að neita pörum af sama kyni um hjónavígslu á grundvelli eigin samvisku ekki viðunandi. Þessa reglu ætti Þjóðkirkjan að afnema. Hún samræmist einfaldlega ekki anda kærleiksboðskapar meistarans frá Nasaret sem er í anda „Gullnu reglunnar“.
Í því sambandi má benda á einn af grundvallartextum Nýja testamentisins sem kirkjan hvílir á og byggir kærleiksboðskap sinn á. Þar segir í Jóhannesarguðspjalli í 13. kafla þar sem Jesú eru lögð í munn orð um boð hans til fylgjenda sinna: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh 13.34-35).
Að vilja útskúfa fólki vegna meðfæddra og eðlislægra eiginleika sinna, útskúfa þeirri „sköpun Guðs“, samrýmist ekki þessum boðskap. Það samrýmist heldur ekki almennum mannréttindum í lýðræðisríkjum í dag. Þeir sem það vilja gera, með tilvísunum í tiltekin textabrot í helgiriti sem rituð voru í fornu og ævafornu samhengi og samfélagi, endurspegla þröngsýna og óviðeigandi bókstafshyggju að hætti ýmissa sértrúarsafnaða. Þeir sjá ekki skóginn fyrir trjánum, eða kjósa svo.
Raunveruleg „þjóðkirkja“, eins og sú íslenska segir sig vera í merkingu þess hugtaks, er fyrir alla.


mbl.is Hvað gerðist á uppstigningardaginn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Rétt er það hjá þér, Kristinn Snævar, að Hildur Eir sló hér um sig með orðinu "fordómar" á alls óverðugan hátt. Sjálf virðist hún haldin forómum gagnvart kenningartrúum prestum.

En svo talar þú hér um "þröngsýna og óviðeigandi bókstafshyggju", sem þú segir vísa í "tiltekin textabrot [af hverju "textabrot"??!] í helgiriti sem rituð voru í fornu og ævafornu samhengi og samfélagi," rétt eins og aldurinn tali gegn gildi ritanna, og þá ertu greinilega ekki að hugsa þetta út frá kristnu sjónarmiði, sem er það, að Guð Faðir á himnum hafi sent okkur Son sinn til að opinbera okkur vilja hans og ráðsályktun, kærleika hans og hans nýja boðorð, en jafnframt að þessi sami Guðs Sonur valdi sína postula til að boða okkur orð sannleikans, studda af Heilögum Anda sem leiddi þá í allan sannleikann um þá kenningu sem þeim var ætlað að flytja. Þess vegna tekur kirkjan frá upphafi við orðum postulanna sem óskeikulum og bindandi; það sama gerði Lúther á 16. öld, sem setti einmitt Pál og kenningu hans um trúna og réttlætinguna í öndvegi, og af hverju halda þá lútherskir kennimenn sig ekki við það?!

Það er fjöldi synda, sem geta aðskilið mennina frá Guði og eilífu hjálpræði samkvæmt Ritningunni, Kristinn. Þér dugar ekki að setja þar sviga utan um kynmök fólks af sama kyni, því að þau falla sannarlega undir alvarlegar syndir samkvæmt Nýja testamentinu. Þetta eru þó fyrirgefanlegar syndir eins og flestar aðrar, það kemur skýrt fram í orðum Páls í I.Kor.6.11, en forsendan er iðrun og að snúa sér frá syndinni; iðrunarleysið viðheldur hins vegar syndinni.

Og þessi kenning Páls er jafnvel "samkvæmt fagnaðarerindinu um dýrð hins sæla Guðs," eins og hann segir í I.Tím.1.11.

Guð ber umhyggju fyrir öllum mönnum, og boðorð hans miða líka við það. Menn ættu því að endurskoða ætlan sína um ýmislegt, ef þeim sýnist sem boð hans samrýmist ekki "nútímanum". Kanni þeir t.d. heilsufarsleg áhrif samkynja kynmaka og leyfi sér að hugsa út fyrir viðtekna rammann, kann svo að fara, að þeir sjái, að þau eru ekki farsæl fyrir manninn -- sbr. t.d. sitthvað sem kemur fram um ýmsar rannsóknir í þessari grein minni: Séra Bjarni fantaserar um heilnæmi samkynhneigðar

Jón Valur Jensson, 15.5.2015 kl. 01:45

2 Smámynd: Jón Þórhallsson

ER EKKI BIBLÍAN INNI Í ÖLLUM KIRKJUM LANDSINS?

Hérna eru GUÐS-ORÐIN alveg svart á hvítu í HEILAGRI RITNINGU:

*The HOLY bible*
*3.Mos.18.22*
*Opb. 22.18-21*

Jón Þórhallsson, 15.5.2015 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband