Náttúrupassinn fær reisupassann

Það er ekki nema von að iðnaðarráðherrann skuli gefa náttúrupassa ómöguleikans reisupassann; og er það vonum seinna.

Hvað er þá til ráða? Jú, hin eðlilega lausn: Þeir borgi sem njóta, þ.e. seljendur og/eða kaupendur þjónustu við náttúruskoðun.

Hverjir eru seljendur? Eigendur og/eða handhafar landgæðaréttinda. Þeir ættu að kosta sómasamlega þjónustuaðstöðu og viðhald hver á sínum stað, sem háð yrði opinberu eftirliti og leyfisveitingum, og hafa leyfi til að taka "hæfilegt" og "hóflegt" gjald fyrir.

Að öðrum kosti, eins og verið hefur hingað til og enn stefnir í, eru skattgreiðendur á Íslandi að niðurgreiða og/eða styrkja með óbeinum hætti starfsemi hópferðafyrirtækja og bílaleigufyrirtækja sem gera út á þessa auðlind sem íslensk náttúra er.

Hópferðafyrirtæki og aðilar sem selja (ekki síst erlendum) ferðamönnum útsýnisferðir á tiltekna staði gætu að sjálfsögðu selt kúnnum sínum aðgöngumiða á viðkomandi staði samkvæmt samkomulagi við hvern aðila eins og verkast vill.

Nú, sem áður, er bara hægt að harma að stjórnmálamenn og embættismenn skuli hafa eytt dýrmætum tíma í athafnaleysi í skipulags- og gjaldtökumálum út af vangaveltum og hugmyndum um náttúrupassa sem ekki getur virkað sem skyldi, í stað þess að drífa í að koma á nothæfu og eðlilegu fyrirkomulagi t.d. á ofangreindum nótum eins og tíðkast víða erlendis og þykir eðlilegt.

Þetta fyrirkomulag leysir þó ekki allan vandann tengt kostnaði við vinsæla og verðandi ferðamannastaði til náttúruskoðunar. Þar verður hið opinbera að kosta til og styrkja lágmarksframkvæmdir til að byrja með á hverjum stað. Það má fjármagna með gistináttagjaldi og öðru því um líku sem til þess er ætlað.


mbl.is Gefur náttúrupassa upp á bátinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband