Stormur í spábolla Veðurstofunnar

Þetta reyndist nú aðeins verða "smágustur" og ekkert líkt hvellinum um daginn sem Veðurstofan hótaði okkur veðurleysingjunum með sem í mesta sakleysi ætluðum að keyra niður Norðurárdalinn, fyrir Hafnarfjall og yfir Kjalarnes á Páskadag. Tókum við saman föggur okkar í skyndi um kvöldmatarleytið á laugardagskvöld þegar hin ógnþrungna spá Veðurstofunnar glumdi við og fórum þannig degi fyrr til Reykjavíkur en áformað var. Gusturinn rétt marði 30 m/sek samkvæmt mælinum við Hafnarfjall og rétt hnippti aðeins í bílinn þrotinn hinum ógurlegu kröftum. Hressileg rigning en enginn bíll á flugi. Hundurinn í skottinu geispaði hæðnislega út um opinn gluggann og lék við hvert sitt skott.

Hin ónákvæma frétt í Sjónvarpinu og á veðurkortinu á mbl.is um að hviður gætu farið í 40 m/sek "frá um 21 til 2 í nótt" reyndist því aðeins vera gustur á kortaborði Veðurstofunnar og hefði átt að hafa glugga lokaða þar á bæ. Ónákvæmnin í fréttaflutningnum fólst í því að ekki kom fram hvort "veðurofsinn" ætti að hefjast á þessu tímabili eða vara einungis á þessum umrædda tíma. Þess vegna dreif fólkið sig í bæinn strax og hægt var og var á seinni tímanum í 22 á laugardagskvöldið að gá til veðurs undir Hafnarfjalli á leiðinni heim úr páskafríi - fyrir páska!

Vonandi berast nákvæmari spár og fréttir af veðri í framtíðinni, þótt vissulega megi með einhverjum hnitmiðaðri hætti reyna að koma í veg fyrir að vegvilltir og viti firrtir fjallafarar ani upp á fjöll og firnindi og fari sér þar að voða sökum óaðgætni um veðurhorfur og neyði þar með fórnfúsa björgunarsveitarmenn til að færa þeim fórnir að óþörfu.


mbl.is Búist við hviðum strax í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband