Upplýsing háskólakennara

Ég hef áður í spurn eftir umræðu háskólakennara og viðkomandi embættismanna í bloggi og dagblöðum, um t.d. efnahagsmál landsins, velt fyrir mér hvort þögn þeirra um slík mál stafi af hræðslu þeirra við að tjá sig á opinberum vettvangi af einhverjum ástæðum. Það er afleit staða. Svona á standandi fæti koma mér einungis tveir háskólaprófessorar í hug sem hafa verið áberandi og duglegir við að viðra skoðanir sínar um landsmálin á opinberum ritvangi, hvor með sína hugmyndafræði og túlkanir að vopni. Hvað eru allir hinir að hugsa?!

Almenningur á það skilið að t.d. háskólakennarar og ekki síst fólk með doktorsgráðu marki sér tíma til að rita á skiljanlegu máli á grunni menntunar sinnar um mál sem eru ofarlega á baugi hverju sinni og leitist með því að varpa fræðilegu ljósi á umræðuna og vega og meta hina margvíslegu fleti sem iðulega eru á hverju máli á grundvelli fræða sinna.

Ég óska Bryndísi Hlöðversdóttur, hinum nýja rektor Háskólans á Bifröst, til hamingu og farsældar í brautryðjandi starfi. Hún virðist samkvæmt meðfylgjandi frétt drepa tilhlýðilega á þetta mikilvæga atriði í innsetningarræðu sinni og eru slík hvatningarorð skólayfirvalda með svo áberandi hætti löngu tímabær. Hún setur hér gott fordæmi fyrir kollega sína.

Í þessu sambandi vil ég minna "þögula" háskóladoktora og -kennara á grundvallarrit um rétt opinberra starfsmanna til að tjá sig sem sérfræðingar utan starfs síns, þ.e. ekki sem embættismenn, heldur sem einstaklingar. Það er ritgerðin "Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?" eftir Immanuel Kant (1724-1804), sem hann samdi í einveldisríkinu Prússlandi 1784. Ritið er til á íslensku og var birt í Skírni nr. 167, 1993, s. 379-386. Kant segir þar í upphafi greinar sinnar:

"Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum þess ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á. Ósjálfræði er vanhæfni mannsins til að nota eigið rökvit án handleiðslu annarra. Maðurinn á sjálfur sök á þessu ósjálfræði þegar orsökin er ekki skortur á hyggjuviti heldur vöntun á einurð og hugrekki til að nota hyggjuvit sitt án handleiðslu annarra. Einkunnarorð upplýsingarinnar eru því "Sapere aude!", hafðu hugrekki til að nota þitt eigið hyggjuvit!".

Takið því til máls góðir heilar! Þið hafið fullan rétt á því og eigið ekki að þurfa að óttast einhverjar refsingar af yfirmönnum.
Hvað segið þið um t.d. kosti og galla aðildar Íslands að ESB, samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og forsendur fyrir nýjum áherslum í menntunar- og atvinnumálum, og orku- og auðlindamálum Íslands svo fáein mikilvæg umræðusvið séu nefnd? Hverjar eru líklegar afleiðingar mismunandi valkosta á þessum sviðum?


mbl.is Háskólafólk óttist ekki að tjá sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

Hér áður fyrir þótt það merki um greind að þegja þunnu hljóði, frekar en láta koma upp um vangetu sína. Ég tel alla sem virkilega er klárir hafa mikinn áhuga á öllu undantekningum sem koma upp innan sinnar fræðigreinar. Einnig tel ég  að því fleiri rök á samþykktum vitsmunagrunni til stuðnings eða hrakningar máls sem skipta heildarhagmuni þjóðarinnar öllu máli gera gagn, og bara þeir sem telja sig vanhæfa um málið eigi rétt á því að þegja fyrir kurteisis sakir.

Júlíus Björnsson, 12.1.2011 kl. 19:29

2 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Sæll, Júlíus. Þetta er hárrétt athugað hjá þér.

Vonandi taka t.d. allir fræðimenn þetta til sín og mundi nú penna sinn á blaði sínu eða fingurna á tölvu sinni og viðri viðeigandi fleti á mikilvægum málum þjóðlífsins.

Kristinn Snævar Jónsson, 18.1.2011 kl. 14:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband