Hagfræðingar á hálu svelli Icesave

Hverjir eru grundvallarhagsmunir Íslands?
Hverjar eru afleiðingar samþykktar eða synjunar á Icesave-lögunum?

Tómas Ingi Olrich fyrrv. sendiherra og ráðherra skrifar athygliverða grein í Morgunblaðinu í dag 3.2.2010 undir yfirskriftinni “Hagfræðingur á hálu svelli”.
Þar er hann að svara grein Friðriks Más Baldurssonar hagfræðiprófessors við Háskólann í Reykjvík frá 2.2.2010 í Morgunblaðinu er ber yfirskriftina “Icesave: Mat á afleiðingum samþykktar og synjunar”.

Tómas bendir á það sem hann kallar veikleikana í úttekt Friðriks um mat á afleiðingum samþykktar eða synjunar á Icesave-lögunum. Þeir felist í óvissunni um þær forsendur sem Friðrik byggi útreikninga sína og mat sitt á. Í niðurstöðu sinni segir Tómas m.a.:
“Svo virðist sem prófessor Friðrik Már geri ráð fyrir að ef Íslendingar hafni lögunum um Icesave, setjist þeir með hendur í skauti sér og bíði. Það verði sem sagt ekkert aðhafst og menn bíði þess sem dæmdir að lenda í vandræðum.”

Þetta er lóðið! Auðvitað verður það ekki svo að þjóðin hætti að vinna að verðmætasköpun, vegna þess að ríkisstjórn landsins, hver sen hún verður, mun ekki lýðast til áframhaldandi lengdar að vinna ekki að uppbyggingu á efnahagslífi Íslands í sátt við þegna landsins.

Annað atriði vil ég ennfremur benda á, sem ekki kemur fram í ofangreindum greinum.
Friðrik Már bendir réttilega á ýmis atriði sem huga þarf að varðandi hugsanlegar afleiðingar af mismunandi ákvörðunum um málið.
Hins vegar snýst megin vandinn um að meta haldbærni forsendnanna sem reiknað er út frá.
Friðrik virðist ganga út frá því sem gefnu að trúverðugleiki Íslands og efnahagslífs þess muni standast og batna í augum erlendra lánardrottna verði Icesave-lögin samþykkt og að  hið gagnstæða muni gerast ella.
Þetta er afar hæpin forsenda í sjálfu sér sem hvílir að miklu leyti á tilfinningalegum rökum.

Erlendir lánardrottnar og hugsanlegir erlendir fjárfestar á Íslandi munu ekki taka ákvarðanir út frá samúð með Íslendingum eða á grundvelli tilfinningalegra atriða, heldur út frá köldu mati og áliti sínu á innviðum íslenska efnahagskerfisins, framleiðslukerfinu og tengdum þáttum og möguleikum þess og getu til að skapa verðmæti, þar með talið arð af viðkomandi fjárfestingum.

Grundvallarforsenda fyrir umsnúningi á högum Íslands hvílir því á framleiðslukerfi landsins og forsendum þess og væntri framtíð. Það verður undir öllum kringumstæðum að styrkja með ráðum og dáð, hvað svo sem verður ákveðið í Icesave-málinu.
Ef framleiðslukerfið koðnar niður, þá er voðinn vís með meiri líkum en ef Icesave-lögunum yrði hafnað.

Stjórnvöld ættu því að beina mestum kröftum sínum að uppbyggingu framleiðslukerfis landsins og innviðum efnahagslífsins og vinna í samræmi við heilbrigðan þjóðarvilja í stað þess að slást við þjóðina og halda til streitu rökum í Icesave-málinu sem hugnast bresku og hollensku ríkisstjórnunum og svokölluðu “alþjóðasamfélagi”, að því er virðist af hræðslu einni saman eða dómgreindarleysi og aðgerðarleysi varðandi það að koma málinu í annan umræðufarveg á forsendum Íslands.
Fleiri öflugar þjóðir tilheyra alþjóðasamfélaginu fyrir utan ESB-þjóðirnar, sem farsælt má telja að yrði fyrir Ísland að efla viðskipti sín við frá því sem nú er, á mörgum sviðum og á forsendum Íslands.


mbl.is Gegn hagsmunum Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband