Bullandi meðvirkni með feluleik stórþjóðanna

Samkvæmt þessari frétt virðast sum Norðurlöndin ásamt fleiri óuplýstum aðilum vera í bullandi meðvirkni með stórveldunum og virðast ekki hafa kynnt sér um hvað "þrjóska" sumra Íslendinga snýst í Icesave-málinu.

Þessir aðilar virðast vaða í þeim villta misskilningi að Íslandi beri að borga það sem ríkisstjórnir Breta og Hollendinga hafa sett upp einhliða í Icesave-málinu með hótunar-byssuhlaup sín á höfðum skjálfandi "viðsemjendanna",  íslensku ríkisstjórninni.

Þessir aðilar virðast ekki skilja að vafi leikur á um hverja skyldur Íslendinga og Breta og Hollendinga sjálfra eru raunverulega í þessu máli í ljósi þágildandi lagaákvæða um innistæðutryggingasjóði í löndum í ESB og EES er Icesave-kerfið var sett á laggirnar í Bretlandi og Hollandi fyir bankahrun.
Í reynd er enginn vafi þar á; Ísland uppfyllti skyldur sínar í því tilliti samkvæmt reglunum. Bretland og Holland þverskallast við að viðurkenna það. Litlu þjóðirnar nágrannar okkar og önnur lönd í ESB og EES sitja bara rjóð hjá og segja já og amen við stóru viðskiptaþjóðir sínar, Bretland og Holland, í meðvirkni sinni.

Þessir aðilar virðast ennfremur halda að Íslendingar ætli sér heimta lán frá nágrannaþjóðum með það fyrir augum að borga þau ekki til baka. Hvílíkir fordómar og sleggjudómar og glópska! Svona viðhorf sæmir ekki siðuðum þjóðum, sbr. þetta sem fram kemur í þessari frétt. Íslendingar geta ekki setið undir svona rakalausum, villandi og mannorðsmeiðandi aðdróttunum þegjandi og hljóðalausir á erlendum vettvangi.

Þetta er enn einn vitnisburðurinn um að íslenska ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig í að halda málstað Íslands á lofti og koma umræddum þjóðum í réttan skilning um málavöxtu hvort sem þær vilja eða vilja ekki. Þeim á ekki að lýðast að hylma yfir sannleikann í þessu máli og væna svo allan íslenskan almenning um glæpaeðli og glæpsamlega tilburði á erlendum lánamörkuðum núna.
(Svo virðist sem sumir Danir og Bretar nýti sér báglegt ástand Íslands núna til að sparka í það með rætnum hætti út af fyrri ágreiningsefnum þegar Ísland fór með sigur af hólmi yfir þeim, af öðrum fréttum í dag að dæma, sbr. þorskastríðin við Breta og sambandsslitin við Danmörku. Lúalegt athæfi atarna eða dæmi um afar kaldan húmor við óviðeigandi aðstæður).

Eftir að forseti Íslands vakti ríkisstjórnina harkalega af Þyrnirósarsvefni sínum í heimagarði með því að synja samþykki á lögum um meðvirkandi kúgunarskilyrði Bretlands og Hollands gegn Íslandi hefur hún núna möguleika á að reka af sér slyðruorðið og breyta hugarfari sínu í meðferð hagsmuna Íslands á erlendum vettvangi. Það má ekki seinna vera.
Núna þarf hún að hrista af sér þrælsóttann og slenið og sækja fram af hugrekki og málafestu og koma umheiminum í skilning um um hvað málið snýst: Réttlæti!

Eða snýst samheldni þjóðanna í ESB um að iðka óréttlæti gagnvart þjóðum utan bandalagsins og svína á hagsmunum annarra til að redda eigin skinni? Ég vil ekki trúa því fyrr en yfir lýkur. Auðvitað er meðal almennings þar mikið af heiðarlegu venjulegu fólki eins og á Íslandi. Það eru ESB-kjötkatlastjórarnir og slíkir sem við eigum í höggi við, ekki síst flokkslegir hagsmunir og pólitískir sérhagsmunir og þau öfl sem þeir þjóna.

Mér er ekki grunlaust um að það séu einmitt þessi atriði sem eru meginástæðan fyrir hörku, óbilgirni og hroka Breta og Hollendinga í garð Íslendinga, þar sem þau vilja ekki að þessi mál komi til umræðu í dagsljósi. Þess vegna reyna þeir að beina athyglinni í aðra átt, sem sé að væna íslensku þjóðina um óreiðumennsku.

Í því sambandi er afar upplýsandi og hrollvekjandi að lesa skýrslu Evu Joly í bók hennar Hversdagshetjur þar sem hún lýsir hvernig Bretland gætir viðskiptahagsmuna sinna og hylmir yfir næsta ólöglega viðskiptahætti þar í landi t.d. á sviði vopnaframleiðslu og á fjármálasviði.
Joly bendir á að sérstaklega eitt atriði skipti Bretland höfuðmáli: Að varðveita orðspor sitt. Ef efnahagslegt stórveldi fái það orðspor á sig að þar ríki spilling þá steypir það efnahagslífi þess í voða í alþjóðlegum viðskiptum. Ef Bretland fái þann stimpil á sig, nánar tiltekið, að "lítið eftirlit sé með fyrirtækjum" þar, þá "hittir það efnahagskerfið í hjartastað", segir Joly (s. 47-48).

Það skyldi þó ekki vera að þetta sé hin raunverulega ástæða hörku Bretlands gegn Íslandi í Icesave-málinu, þ.e. að láta líta svo út sem öll sökin liggi hjá Íslandi en ekki hjá Bretlandi! Holland væri þá undir sömu sök selt og meðvirkar í því máli af sömu ástæðu til að verja eigið efnahagskerfi. Afleiðingin er sú að Íslandi, efnahagskerfi þess og lífsafkomu íslenskra þegna, er fórnað til að bjarga stórþjóðunum!

Þetta getum við ekki látið viðgangast. Eva Joly og hennar líkar eru að berjast af heiðarleika og réttsýni og hugrekki gegn svona kúgun og einnig Serious Fraud Office (SFO) í Bretlandi. Tony Blair og ríkisstjórn hans stöðvaði hins vegar rannsókn hennar þegar hún var byrjuð að afhjúpa spillinguna í hergagnaviðskiptum landsins og draga nöfn hlutaðeigandi fram (s. 57).


mbl.is Segja að Íslendingar verði að standa við skuldbindingar sínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Þakka þér fyrir þennan góða pistil Kristinn. Ég get tekið undir allt sem þú nefnir.

Þegar fólk eins og Eva Joly kemur fram og byltir umræðunni, þá blasir við aumingjaskapur Icesave-stjórnarinnar. Ef við hefðum hóp manna sem gengu af krafti í að snúa við áliti heimsins á Icesave-málinu, myndi það takast á skömmum tíma. Við höfum öll rök málsins með okkur, en þessar hraklegu lyddur sem stýra landinu hafa ekki dug til eins eða neins.

Loftur Altice Þorsteinsson, 8.1.2010 kl. 19:57

2 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Já Kristinn takk. Hún Eva Joly er snillingur, og einhvern veginn þakkar maður Guði sínum fyrir hana. Sem og fyrir visku hennar og þekkingar brunn.

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 8.1.2010 kl. 22:10

3 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Þakka ykkur innlitið.

Já, ég tel að Eva Joly sé ákaflega gott dæmi um manneskju með ríka réttlætiskennd, hugrekki og framtakssemi til að fylgja hugsjónum sínum eftir. Eða, hvers vegna ætti vandalaus einstaklingur úti í heimi að taka upp hanskann fyrir Ísland og Íslendinga eins og hún gerði er hún kom að bankahrunsmálinug íslenska og Icesave-málinu í upphafi? Og, halda því áfram þótt móti blási og sjálfsagt í mikilli óþökk sterkra erlendra aðila sem hún hefur verið að kljást við þar ytra. Hins vegar tengjast mál Íslands að því er varðar hina föllnu íslensku einkabanka og þá einstaklinga er þar komu við sögu erlendum spillingarmálum sem hún hefur verið og er að kljást við. Það eru væntanlega bara nokkur stykki í heildarpúsluspilinu í þeim alþjóðlega vef fjármála sem hún er að rannsaka fyrir aðrar ríkisstjórnir líka. Við vorum heppnir, Íslendingar, að hún var að vinna að þessum málum og að því er virðist sem köllun.

Svona einstaklingar eru vonandi nú innanborðs í íslenska fjármálaeftirlitinu og öðrum íslenskum embættum sem þurfa að fletta ofan af misfellum í íslensku fjármálalífi með hagsmuni þjóðarinnar fyrir augum.

Kristinn Snævar Jónsson, 8.1.2010 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband