Færsluflokkur: Trúmál

Orð að sönnu

Nývígður biskup, Agnes M. Sigurðardóttir, bendir á í vígsluræðu sinni að erindi kristinnar kirkju við samfélag manna sé "gefandi og gott, lífgefandi, styrkjandi". Þess vegna sé kirkjan ein af "grunnstoðum samfélagsins".

Þetta eru orð að sönnu.

Þetta ætti að vera augljóst öllum þeim sem kynna sér þann boðskap og viðleitni kirkjunnar til að vera einstaklingnum athvarf, stoð og huggari, samfagnandi og leiðbeinandi honum í ólgusjó lífsins. Þar með leggur kirkjan grunn að og viðheldur uppbyggilegri og friðsamlegri samfélagsheild. 

Eitt meginstefið í boðskap kristinnar kirkju er "Gullna reglan" um náungakærleik, sem er óneitanlega góður boðskapur. Í þeim anda eru meistaranum frá Nasaret lögð þau orð í munn að það eitt bjóði hann mönnum, "lærisveinum" sínum, að þeir "elski hver annan" (sbr. Jh 13.34). Ef menn hefðu þessa hvatningu í huga og færu eftir henni væri hægt að komast hjá margháttuðum ágreiningi, átökum,  kúgun og mismunun í samfélaginu og milli þjóða.

Reyndar er Gullnu regluna einnig að finna í öðrum heimstrúarbrögðum eins og gyðingdómi, íslam, búddisma og bahá'í-trú. Þetta eru almenn sannindi og í sjálfu sér ætti þess vegna ekki að þurfa trúarbrögð til að flytja þann boðskap í mannlegu samfélagi, en þau eru hins vegar einstæður og eðlilegur farvegur til þess.


mbl.is Kirkjan hefur sett gott fordæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipulegt einelti á sviði túlkandi vísinda?

Frásögn í Morgunblaðinu 4.12.2011, s. 18-21, af málsatvikum í sambandi við ákærur og framkomu meðlima félagsskaparins Vantrúar gagnvart Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara við guðfræði- og trúarbragðafræðadeildar HÍ er með ólíkindum. Frásögn af orðbragði sem Vantrúarmenn eru sagðir hafa viðhaft vekur viðbjóð og forundran. Að þetta skuli að hluta til vera háskólamenntaðir menn og kennarar við HÍ í þokkabót gerir mál þetta enn hneykslanlegra. Svo virðist sem eitt af yfirlýstum markmiðum Vantrúarmanna hafi verið að leggja Bjarna "í einelti" með skipulegum hætti; Jafnvel hafi komið til tals að gera það gagnvart öðrum áberandi einstaklingi (s. 20), ungum og nýútskrifuðum guðfræðingi, sem er þó þessu máli óviðkomandi. Í frásögn Mbl. er þarna vitnað í umræður á innri vef Vantrúar. Hvað er eiginlega hér á seyði?

Siðanefnd HÍ virðist hafa tekið stórfurðulega á málinu og ekki verið hlutlaus, að því er virðist vegna persónulegra skoðana einhvers eða einhverra nefndarmeðlima. Formaður nefndarinnar hafi þannig m.a. "lekið" upplýsingum í Vantrúarmenn "um framgang málsins og um afstöðu hinna nefndarmanna" (s. 20). Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, sem Bjarni fékk sér til varnar í málinu, komst svo að orði um meðferð nefndarinnar á málinu að hann hefði "aldrei séð svona illa haldið á málum eins og í þessu tilviki".
Í kjölfar sakfellandi sáttatillögu siðanefndar til guðfræði- og trúarbragðafræðideildar (á tíðum virðist óljóst hvort sakborningurinn sé deildin eða Bjarni), þegar hún spurðist út innan háskólans, tjáði hópur kennara og doktorsnema við HÍ sig um meðhöndlun siðanefndar og skrifuðu undir ályktun "þar sem vinnubrögð siðanefndarinnar eru gagnrýnd" og áréttuðu "... mikilvægi þess að Háskóli Íslands standi vörð um rannsóknarfrelsi kennara ...". Þá sagði formaður siðanefndarinnar af sér (s. 19). Eftir formannsskipti og stækkun nefndarinnar um tvo er hún samt enn neikvæð í garð Bjarna, en er sögð hafa átt erfitt með að átta sig á fyrir hvað Bjarni er kærður.

Á seinni stigum málsins tjáir forseti hugvísindasviðs, Ástráður Eysteinsson, sig um málið og bendir m.a. á að háð niðurstöðu siðanefndar geti málið snúist upp í að varða "okkur öll sem sinnum kennslu í túlkunarvísindum á háskólastigi" (s. 20).

 Rannsóknarnefnd, sem loks var skipuð af hálfu Háskólaráðs, komst síðan að þeirri niðurstöðu að "siðanefnd HÍ hafi sniðgengið eigin starfsreglur sem tilgreindar eru í siðareglum háskólans" og bendir á ýmsa ágalla í málsmeðferð hennar (s. 20).

Það sætir engri furðu að rektor HÍ skuli segja aðspurð um málið að það sé "flókið", en hitt þarf meiri útskýringa við er rektor telur að nefndin hafi starfað "í góðri trú og viljað leita sátta þannig að enginn teldi á sig hallað" (sbr. Morgunblaðið 6.12.2011, s. 9). 

Frásögn Morgunblaðsins um kærumálið og eineltið gegn Bjarna sem viðgengist hefur m.a. af kennurum innan HÍ, að því er virðist m.a. vegna persónulegrar lífsskoðunar þeirra sjálfra, lýsir öðrum þræði skoðanakúgun og -ofbeldi innan HÍ og brotalöm í umsýslukerfi háskólans við að taka á slíkum málum af hlutleysi og réttsýni. Þetta mál er með "endemis endemum". Maður spyr sig hvernig svona lagað getur eiginlega gerst og hvort það geti gerst aftur. Þótt rektor HÍ, sem er raunvísindamaður, tilgreini ekki neitt athugunarvert við þetta mál annað en að það hafi "kennt okkur að málsmeðferðarreglur verða að vera skýrar og ferli mála gagnsætt", þá er vonandi að Bjarni fái réttlátar úrbætur vegna þess sem hann hefur mátt þola og kosta til við að verja mannorð sitt og starfsheiður. Einnig að komið verði í veg fyrir að svona mál endurtaki sig. 

Uppkoma þessa máls beinir kastljósinu einnig að forsendum kennslu á sviði túlkandi vísinda í háskólum, eins og forseti hugvísindasviðs HÍ benti á. Mun það viðgangast að beita þöggun á einhvern hátt og að vegið sé að rannsóknarfrelsi? Þar er ekki aðeins um að ræða trúarbragðafræði heldur allar greinar hugvísinda.
 Hvað til dæmis um kenningar um að landnám á Íslandi sé mun eldra en gamla Íslandssagan kennir? Hvað um hinar goðum líku persónur Gunnar og Njál? Er aðild að Evrópusambandinu slæmur kostur? Eru sumar hagfræðikenningar í ætt við trúarbrögð? Voru sumar hugmyndir Freuds bull? Verður bókvitið í askana látið? Eða, eru askar ef til vill búnir til með hugviti og þekkingu, sem og maturinn sem í askana er látinn? Og svo framvegis!

Það er ekki furða, sem greint er frá í Mbl. (s. 9), að Höskuldur Þórhallsson Alþingismaður skuli sjá ástæðu til þess, eftir að hann las frásögnina í Mbl., að taka málið upp á Alþingi og að kannað verði "hvað hafi gerst innan Háskólans".


mbl.is Vill að HÍ bæti mannorðstjón og kostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um huglægan sköpunarmátt að fornu og nýju

Yfirskrift þessa pistils er undirtitill lokaritgerðar minnar í Cand.theol. námi, á sviði nýjatestamentisfræða, við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands (maí 2011), en yfirtitill hennar er:

"Túlkun á valentínsku upprunamýtunni og sálarlegum þáttum hennar í ljósi árangursfræða".

Eftirfarandi er ágrip af innihaldi ritgerðarinnar, sem er 70 bls. að lengd:

Ritgerðin er annars vegar greinargerð um tiltekið sjónarhorn á valentínsku upprunamýtuna þar sem aðaláherslan hvílir á sköpunarþætti hennar og útgeislunum guðdómsins í því sambandi, svokölluðum Fullnustufræðum (e. Pleromatology), sem og sálarlegum þáttum. Einnig er byggt á hugmyndum gnóstíkea um sjálfsþekkingu eða þekkingu, gnósis, sem var keppikefli þeirra að öðlast, en þeir héldu því einnig fram að þekking á guðdóminum væri leið manna til að öðlast endurlausn hér og nú.
Hins vegar er gerð grein fyrir grundvallaratriðum í svokölluðum árangursfræðum, sem áberandi eru í nútímanum, er snerta sjálf, meðvitund og undirmeðvitund mannsins og huglægan sköpunarmátt og sálfræðileg atriði í tengslum við það.
Í því sambandi eru hliðstæður greindar með valentínsku upprunamýtunni og kenningum í nútímanum um sjálf manna, þar sem meðal annars er komið inn á aðferðir árangursfræða. Sérstaklega eru túlkanir þeirra og forsendur um huglægan sköpunarmátt og „beitingu“ hans við sköpun bornar saman.
Ekki er reynt að færa rök fyrir sanngildi túlkananna, eðli málsins samkvæmt, heldur að draga fram rök fyrir því að varðandi túlkun á sjálfum sköpunarmættinum sé um sambærilegt fyrirbæri að ræða sem byggi á hliðstæðum grunni, enda hafa viðkomandi höfundar litið á hann sem guðlegan sköpunarkraft og andlegt lögmál.
Varðandi árangursfræði er fjallað um hvernig umræddur huglægi sköpunarmáttur tengist og felist í sjálfsþekkingu manna og beitingu þeirrar þekkingar til að ná bættum alhliða árangri í lífi sínu út frá persónulegum markmiðum. Fjallað er um hvernig sú vegferð tengist viðleitni manna til að öðlast sjálfsstjórn og tileinka sér betri lífsstíl, líkt og stóíkear og fleiri skólar kenndu til forna, en fræðimenn hafa sýnt fram á hvernig mýtan hefur verið notuð sem tæki í þeim tilgangi.
Hliðstæður varðandi sálarlega þætti í þessu sambandi eru greindar milli hinnar fornu mýtu og árangursfræða nútímans í ljósi þeirra kenninga sem í þeim felast um guðlegan og huglægan sköpunarmátt.

(Höfundur útskrifaðist með lærdómstitilinn Cand.theol. til embættisprófs, þ. 11. júní 2011).


Fjallræða sr. Gunnars

Frábært uppátæki hjá sr. Gunnari Kristjánssyni að brydda upp á þessari nýjung í Esjuhlíðum.

Ég er illa svikinn ef hann hefur ekki komið inn á upplífgandi sæluboð Fjallræðunnar í ræðu sinni þar. Oft var þörf en nú er nauðsyn, á þessum dögum þar sem margir telja sig sjá lítið annað í lífi sínu en pínu og píslir, reyk og eimyrju. Fólk þarf því að leggja rækt við að lifa fremur en að líða.
Ekki var þó "dökka díla" að sjá í náttúruferskri Mývatnssveitinni í dag, eftir fréttum að dæma, þar sem fólk á "píslargöngu" og væntanlega í minningu frelsara síns baðaði sig í kyrrðinni og rónni í Guðs hvítri snjóupplýstri náttúrunni.

Veðurbarinn hópurinn fáliðaði sem hlýddi á fjallræðu sr. Gunnars í dag hefur greinilega haft meiri áhuga á því sem þar kom úr því efra og frá Reynivöllum heldur en því sem kemur úr því neðra í suðurhálsum!


mbl.is Messaði við Esju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin píslarganga

Þetta er vonandi engin píslarganga hjá fólkinu á þessum yndislega stað, að ganga úti í Guðs hvítri náttúrunni í kyrrð og ró; Hver með sjálfum sér og því sem býr hið innra og í góðu samfélagi hið ytra.
Og, hvergi sér á "dökkan díl"! Píslir og pína eru sem betur fer foknar út í veður og vind - og koma ekki aftur nema opnað sé fyrir þeim í huganum eða annars staðar.
Það er eins og vera ber.

Betra er að tileinka sér það viðhorf á lífsins gangi að lifa fremur en að líða, sbr. pistil minn um það fyrr í dag.


mbl.is Píslarganga við Mývatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lifa fremur en líða

sr. Friðrik J. Bergmann (1858-1918) flutti brott af Íslandi 1875 til Bandaríkjanna þá 17 ára og lagði þar stund á guðfræði og einnig, eftir tveggja ára hlé, í "Kristjaníu" (Osló) Noregi 1883-85. Vann hann í millitíðinni fyrir farar- og dvalareyri sínum sjálfur eins og dugmikilla Íslendinga var enn siður einni öld síðar að því er sumarvinnu varðar.
Aðhylltist hann svokallaða frjálslynda guðfræði sem þá var víða að ryðja sér til rúms og koma í stað 17. aldar rétttrúnaðar sem þá var enn ríkjandi víða og byggði á gamalli guðfræði. Friðrik var sílesandi eftir því sem honum vannst tími til og lagði áherslu á að afla sér sem mestrar þekkingar á trú, trúmálum og guðfræði. Varð hann prestur og kennari meðal Vestur-Íslendinga í Bandaríkjunum en síðan í Winnipeg í Kanada. Hann átti þar viðburðaríkan starfsferil og lenti m.a. í trúfræðideilum við suma samlanda sína sem fyrir voru og aðhylltust rígfasta bókstafstrú. Greinir hann frá þessum og fleiri málum í bók sinni Trú og þekking (Reykjavík, 1916).

Friðrik kom í heimsókn til Íslands 1899 og fór víða til að fræðast um hagi landsmanna, m.a. í trúmálum, og skoðaði land og lýð með augum guðfræðingsins. Hann gerir um það athugasemd í bók sinni Ísland um aldamótin (Reykjavík, 1901) að kristindómurinn á Íslandi hafi lagt áherslu á þjáninguna, að líða fremur en að lifa. Þótti honum það mjög miður. Bendir hann á að liður í að viðhalda þeirri áherslu hafi einmitt verið Passíusálmar sr. Hallgríms Péturssonar. Þar hafi sálmaskáldið góða hins vegar einbeitt sér að "einni viku í lífi frelsarans", þ.e. píslarsögunni samkvæmt guðspjöllum Nýja testamentisins, en ekki að öllu lífi hans og starfi!

Þetta finnst mér afar athygliverð athugasemd hjá Friðriki og vert að íhuga vandlega í dag. Við erum hér til að lifa lífinu hér og nú og í framtíðinni eins og okkur endist aldur til, sjálfum okkur og öðrum til uppbyggingar og blessunar. Það er gott ef við megnum að skilja eftir okkur spor sem eftirlifendur okkar og afkomendur geta glaðst yfir og þakkað okkur fyrir, ánægðir með samfylgdina. Þá höfum við lifað vel hvað það varðar. Þess vegna er það mikilvægt að beina augum sínum að lífinu og hvernig við getum lifað því sem best í því ljósi. Lifa í anda þess hvað beri að gera.

Í því sambandi eru jákvæðar leiðbeiningar um hvernig lifa ber lífinu í þeim tilgangi uppbyggilegri en neikvæðar hugrenningar um eilífar þjáningar, syndir og skammir sem henta til að brjóta niður sálarþrek þess sem á hlustar og hneppa í sektarfjötra.

Hvar er þá jákvæða leiðsögn að finna í kristindóminum um hvernig lifa á lífinu?, kann einhver að spyrja.
Þar má benda til dæmis á hina einföldu Gullnu reglu sem inniheldur öll þau sannindi sem eru lykillinn að friðsömu og kærleiksríku samfélagi ef eftir henni væri farið í reynd. Þessi sama regla er ennfremur megininntak annarra stórra heimstrúarbragða.

Og, í stað þrumandi þjáningarorða um synd, pínu og fórnardauða væri líklega meira upplífgandi og leiðbeinandi að hlusta á sæluboð hins lifandi frelsara og fræðara, sem honum eru lögð í munn og sagt er frá í svokallaðri Fjallræðu. Þessi boð má t.d. túlka á eftirfarandi hátt:

Sælir eru hógværir, hjartahreinir, friðflytjendur og miskunnsamir,  þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því þeirra laun eru mikil blessun sem sérstaklega þeir sjálfir finna fyrir við sína góðu breytni og fylgir þeim eilíflega.
Þá þurfa heldur ekki þeir að örvænta sem eru "fátækir í anda", þeir sem syrgja, þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, né þeir sem eru smánaðir og ofsóttir eða bornir upplognum sökum vegna sannfæringar sinnar eða annars, því þeim veitist andleg upplyfting og friður í hjarta við skilning á ríki Guðs hið innra, og styrkur og hughreysting frá kærleiksríku samferðafólki á lífsins gangi sem þannig hlýðir guðlegu kalli hið innra og eru samverkamenn Guðs á jörðu við að hugsa um náunga sinn eins og sjálfa sig.


mbl.is Passíusálmar lesnir í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband