Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Spennandi hermilíkan um lífheim

Svona hermilíkan er afar spennandi hugmynd. Við það að tengja saman þekkingu úr öllum heimshornum, greina hana, túlka og öðlast skilning á þeim gagnvirku ferlum sem að baki liggja í samfélagi manna á hverjum "stað" er opnuð leið við þróun aðferða til að spá og/eða sjá fyrir um meginatburði sem líklegir eru að koma til vegna undirliggjandi þróunar í lífheimi jarðar háð tíma. Það gefur mönnum aftur á móti möguleika á því að bregðast við fyrirfram eftir föngum og grípa inn í óheillavænlega þróun.
Þá komum við að því praktíska atriði að hvaða leyti mönnum mismunandi stétta, þjóða, menningarsvæða og landsvæða tekst að koma sér saman um aðgerðir í því sambandi.

Orð eru til alls fyrst. Þegar grundvöllur upplýsinga og þekkingar um hnattræn ferli batnar með þessum aðferðum og tilheyrandi rannsóknarvinnu batna horfur á því að mannkyni sem heild farnist betur en ella.
Hitt er annað að samfara svona greiningartæki kemur líka hætta á því að stórveldi notfæri sér upplýsingar á þeim grunni í sérhagsmunaskyni, t.d. varðandi álitamál hernaðarlegs eðlis.

Við verðum að vona það besta. Notkunarmöguleikarnir á grunni svona hermilíkans eru óteljandi. Rannsóknarvinna við gerð þess býður einnig upp á alþjóðlegt samstarf á þessum vettvangi þar sem hver þjóð getur lagt sinn skerf á sviði bæði raunvísinda og hugvísinda á vogarskálar.
Í samhengi hnattræns líkans fyrir ýmis gagnvirk hegðunarmynstur í lífheimi vega ekki síst hugvísindi á sviði t.d. hagfræði, sálfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði, sagnfræði og trúarbragðafræða þungt; sérstaklega vegna þess að erfiðara er að kveða á um virkni mannlegra þátta heldur en vélrænna lögmála á sviði raunvísinda. Mannlegir og vélrænir þættir spila svo aftur á móti saman t.d. við mat á þróun mengunar og nýtingu náttúruauðlinda.
Þar eru þó alltaf túlkunarvandamál til staðar, eins og verkefni upp úr 1970 á vegum Rómarklúbbsins svokallaða um útreikninga á takmörkum og endingu náttúruauðlinda jarðar og afleiðingum mengunar er dæmi um (sbr. tímamótabók Meadows o.fl. The Limits to Growth 1972, í danskri þýðingu Jörgen Jakobsen Grænser for Vækst 1974, Kaupmannahöfn, Gyldendal. Sbr. einnig önnur skýrsla Rómarklúbbsins um sömu mál í bók Mesarovic og Pestel Mankind at the Turning Point 1974, í danskri þýðingu Jakobsen Hvilke Grænser for Vækst? 1975, Kbh., Gyldendal). Nýrra dæmi eru reiknilíkön um gróðurhúsaáhrif. Sameiginlegt með þessum greiningum öllum var að þær kölluðu á viðbrögð bæði fræðimanna og almennings og hugleiðingar þeirra og umræðu um þessi alvarlegu málefni sem varða forsendur fyrir áframhaldandi lífi hér á jörð.

Spennandi viðfangsefni!


mbl.is Líkan sem hermir eftir öllu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjöll fyrirbyggjandi aðgerð

Þetta gæti reynst ein snjallasta friðarverðlaunaveiting Nóbels og með friðvænlegustu hvatningum sögunnar. Hér setur Nóbelsverðlaunanefndin það ófrávíkjanlega "ok" á herðar eins valdamesta manns og þar með eins voldugasta ríkis og herveldis heims að stuðla að friði, vilji hann og það standa undir heiðrinum. Nú standa augu heimsins eftirleiðis á þessari þjóð og þjóðhöfðingja til að fylgjast með hvernig hún og hann sýna í verki hvernig verðskulda megi heiðurinn. Þetta er held ég frábært uppátæki hjá Nóbelssjóðnum sem fyrirbyggjandi aðgerð gegn ófriði og tilraunarinnar virði.

Hingað til hafa ófriðaröfl og stríðandi aðilar "leikið lausum hala" utan sviðs friðarverðlauna Nóbels, sem hefur einskorðast við þá sem hafa eftir á séð stuðlað að "umtalsverðum" friði. Með þessari friðarverðlaunaveitingu er áhrifasviðið víkkað út til allra og með því reynt að fyrirbyggja ófrið og þar með leiða til meiri friðar eftir á séð en ella hefði orðið raunin á.

Nú er bara að sjá hvort stríðshaukar, sem e.t.v. leynast á hernaðarvaldastöðum vestra, reyni að leiða til þess að forsetinn hafni verðlaununum til að sleppa undan "friðarokinu".


mbl.is Undrandi og auðmjúkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósglætan í dag. Íslensk erfðagreining dæmi um góðan "kokteil" fyrir Ísland

Til hamingju með þessa hressilegu hækkun, Íslensk erfðagreining (ÍE). Þetta er skemmtileg upplyfting. Það eru góðar fréttir að einhverjir þarna úti skuli vera nógu framsýnir og hyggnir til að eygja þann mikla ávinning sem óhjákvæmilega hlýtur að koma í ljós í fyllingu tímans á sviði brautryðjendastarfsins á sviði erfðarannsókna sem ÍE stundar. Þar þarf líka að koma til þolinmæði af hálfu fjárfesta til að festa fé í þessu tímafreka þróunarstarfi.

Þessu máli svipar til þrotlausra tilrauna Thomas A. Edison er hann var að þróa ljósaperuna við nokkuð erfiðar aðstæður. Ef ég man rétt var hann hann búinn að gera um 3000 tilraunir áður en honum tókst að láta lifa á rafperu í nokkurn tíma. Það sem knúði Edison áfram var óbilandi fullvissan um að þetta væri hægt og að þetta væri framtíðin hvað lýsingu snerti, þ.e. að nýta rafmagn. Eins er með erfðarannsóknirnar og þá sem þær stunda og stjórna og leiða.
Hugsa sér það að hægt verði að "lagfæra" gölluð gen í frumum, sem valdið hafa t.d. krabbameinsmyndun í líkamsvefjum og líffærum, þannig að þau framleiði á ný heilbrigðar og eðlilegar frumur, eða með öðrum orðum að hægt verði að setja inn "rétt forrit" fyrir frumuframleiðslu líkamans á viðkomandi stað.
En, fyrst þarf óhemjumiklar rannsóknir og greiningar, bæði á lífsýnunum sjálfum og á sviði ótrúlega flókinna útreikninga við svokallaðar raðgreiningar á sýnunum og tölfræði þar að lútandi (sbr. kynningarbók um efnið: Introduction to bioinformatics, e. Attwood og Parry-Smith, Prentice Hall, 1999). Til þess þarf m.a. öflugan tækjabúnað og hugbúnaðarþróun. Þetta er heillandi starf sem snýst um lífið sjálft. Hvað er mikilvægara?

Hér er um að ræða verðmæta auðlind sem Íslendingar eiga í fórum sínum og sem hægt er að nýta þeim og öðrum til góðs, þ.e. lífsýnasafnið sem ÍE kom sér upp fyrir nokkrum árum í kjölfar sviptinga og venjulegra úrtöluradda í þjóðfélaginu sem ekki skildu eða vildu ekki skilja um hvað málið snýst hvað nýtingu gagnanna varðar. Þessi gögn verða samt bara gögn og ekkert meir og engum til gagns ef þau eru ekki rannsökuð og leitast við að greina þær undursamlegu upplýsingar sem í þeim felast. Til þess þarf tíma, þekkingu, þrotlausa þekkingarleit og ályktunarhæfni (og auga fyrir mynstri!) og margt fleira sem hæft starfsfólk býr yfir, auk hins afar kostnaðarsama tækjabúnaðar og aðstöðu og góðs skipulags. Ekki síst þarf úthald og þrek og þol allra hlutaðeigandi aðila, bæði hjá starfsfólki og fjárfestum. Þessu hafa skammsýnir fjárfestar og fjármálaráðgjafar ekki gert sér grein fyrir í upphafi ef þeir hafa haldið að þeir gætu innbyrt skjótfenginn hagnað á fyrsta ári. Þeir hafa ekki leitt hugann nægilega vel að eðli þessarar starfsemi og gert sér óraunhæfar væntingar um tímasetningu uppskerunnar.

Það er þrekvirki að hafa komið þessu stóra fyrirtæki á laggirnar á Íslandi á sínum tíma og draga að allan þann fjölda hæfs starfsfólks, svo sem sæg vísndamanna á heimsmælikvarða, eins og raunin varð á þegar í upphafi, enda var sárt að horfa upp á er fyrirtækið neyddist til að sjá á eftir mörgum starfsmönnum sínum sökum niðurskurðar í starfseminni í miðjum klíðum fyrir nokkrum árum. Enn meira þrekvirki er að viðhalda þeirri þrautseigju sem þarf til að halda starfinu áfram og leiða fyrirtækið á þróunarbraut sinni þótt á móti blási, köldu á tíðum.

ÍE er dæmi um verðmætan og nýstárlegan fyrirtækjarekstur í landinu sem dregið hefur að erlent fjármagn fjárfesta til að vinna verðmæti úr innlendri auðlind, sem lá dulin og ónýtt fyrir, án þess að henni yrði fargað í leiðinni né umhverfisspjöll unnin eða umhverfið mengað. Þetta er uppskrift að góðum "kokteil" fyrir fjárfreka starfsemi á Íslandi. Við þurfum fleiri svona kokteila hér á landi núna. Þá geta Íslendingar fyrr en seinna haldið veislu á ný með góðri samvisku og jafnvel farið á konsert í nýja tónlistarhúsinu ásamt útlenda ferðafólkinu. Vonandi verða einhverjir nýútskrifaðir kandidatar úr íslenskum háskólum þar á meðal.


mbl.is Bréf deCODE hækkuðu um 14%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband