Mikilvægt er að kjósa - Það skiptir vissulega máli

Já, ég ætla að kjósa og nýta atkvæðisrétt minn.

Ef fólk sem hefur hugleitt að sleppa því að kjósa að þessu sinni fer nú samt á kjörstað og kýs þá verður það hluti bylgju sem hefur sannarlega áhrif þegar talningarniðurstöður liggja fyrir.

Allir sem kjósa hafa áhrif. Það er óhjákvæmilegt í þessu lýðræðislega samfélagi okkar Íslendinga og takk fyrir það. Ég ætla að kjósa!


mbl.is Framsókn stærri en Miðflokkurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég ætla að kjósa"

Vitið þið hvað? Ég ætla að kjósa í alþingiskosningunum 28. október 2017 og nýta þar með lýðræðislegan rétt minn!
Nú, jæja, en hvers vegna? Með aðeins eitt atkvæði í öllu hafi mögulegra kjósenda!?!
Og hvaða gagn hef ég nú af því? Eða þú fyrir þitt leyti ef þú kýst?

Ja, það eru margir sem hugsa á svipuðum nótum og við, hver út af fyrir sig, og ef við drífum okkur á kjörstað þá erum við orðin að hóp sem um munar. Þar með hefur vilji okkar og viðhorf í þeim hópi öðlast tilsvarandi vægi.
Það hefur sín áhrif, og þeim mun meiri eftir því sem fleiri nýta kosningarétt sinn.
Við þurfum bara sem flest að taka þátt og kjósa í samræmi við hug okkar og hjarta, í einlægni. Það góða við það er að enginn sér hvað við kjósum í kjörklefanum. Og við þurfum ekki að segja öðrum frá því hvað við kusum.

Alveg er þetta magnað að búa í lýðræðisþjóðfélagi eins og okkar á Íslandi og geta þess vegna lagt lóð á vogarskálar um val á fólki og stefnu við stjórn landsins; í samræmi við okkar skoðun hvers um sig.
vera þá með í því að velja þingmenn og þjónustulið til þjónustu við okkur almenning í dreifbýli sem þéttbýli og til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir á heilsusamlegan hátt. Og svo getum við ávallt haft samband við þingmenn „okkar“ til að halda þeim við efnið að kosningum loknum. Frábært!


mbl.is Kafað ofan í kannanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loforð virkjunarfjárfesta og lifandi menning

Fari svo að verði virkjað þarna skulu heimamenn gera það að skilyrði að fyrst verði staðið við lofaða uppbyggingu á svæðinu áður en virkjunarframkvæmdir hefjast eða a.m.k. jafnhliða þeim. Dæmi eru um að stórfyrirtæki standa ekki við fögur loforð um uppbyggingu á starfsemi eða öðru úti á landi við uppkaup þeirra eða yfirtöku á rekstri á landsbyggðinni. Talandi um fyrirtæki í sjávarútvegi og vinnslu.

En, hins vegar: Í Árneshreppi og þar um slóðir er Lifandi menning á hverfanda hveli. Hvað vill þjóðin gera í þeim efnum?


mbl.is „Engin glóra“ í Hvalárvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lifandi menning á hverfanda hveli

Lifandi menning í Árnesi á Ströndum hefur átt undir högg að sækja sökum fækkunar ábúenda jarða og íbúa þar í sveit.

Vonandi taka t.d. ráðamenn ferðamála við sér um möguleika á uppbyggingu ferðaþjónustu í þessu héraði og styrki a.m.k. með þeim hætti byggð og byggðarþróun í þessari mögnuðu sveit. Möguleikarnir eru margir í því sambandi, bæði til lands og sjávar og annarrar náttúru, eins og 1200 ára byggð ætti að sanna.

Maður spyr sig hvort Byggðastofnun, meðal annarra aðila, sé ekkert að pæla í viðhaldi byggðar og menningar á þessu svæði. Eða þingmenn kjördæmisins, reyndar alls landsins, þar sem þetta mál snertir þjóðina alla.

Þetta snýst öðrum þræði um það sem ég kalla lifandi menningu, að halda henni lifandi áfram og samfelldri eins og undanfarnar tólf aldir. Eða, eiga erlendir aðilar, m.a. kanadískur auðjöfur gegnum HS Orku og einhver "ítalskur barón", að hafa í hendi sér að virkja með tilheyrandi jarð- og menningarraski þarna á svæðinu? Vegna einkahagsmuna þeirra?

Þetta er mál sem varðar rammíslenska menningu og menningararfleifð og þekkingu á margvíslegri lífsbjörg á svæðinu, menningu sem enn er lifandi, að hún leggist ekki af og glatist.

Ein nauðsynleg og augljós forsenda fyrir varðveislu byggðar og byggðaþróunar í héraðinu er lagfæring á samgöngukerfinu. Að sjálfsögðu verður að tryggja opnar samgöngur um allt árið. Það gefur augaleið, þó ekki sé nema vegna þess að enginn læknir er þar. Þannig er það fjárveitingavaldi landsins og ráðamönnum til skammar að ekki skuli hafa verið rutt undanfarin ár þegar ófærð hamlar för um landveg norður í Árnes. Kostnaður sem er agnarlítill í samhengi fjárlaga. Betur má ef duga skal og þó löngu fyrr hefði verið. Einnig verður að vera þar til staðar lágmarks verslunarþjónusta og grunnskóli, svo fátt eitt sé nefnt.

Þótt fjárveitingar til fornleifarannsókna, uppgraftar og fleira, hafi að dómi viðkomandi starfstétta ef til vill ekki verið nægilegar gegnum tíðina þá hafa þó verið talsverðar fjárveitingar í þann málaflokk. Maður spyr sig í því sambandi hvort horfin menning sé þá mikilvægari heldur en sú sem enn er lifandi hér á landi. Verður þá fyrst áhugi á menningarsvæði því sem hér um ræðir þegar sú lifandi menning væri horfin og langt um liðið?


mbl.is Eins og óargadýr inn í samfélag í sárum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband